Íslenskt stuðningsfólk er stolt af stelpunum okkar eftir 1-1 jafntefli og vonar að þær komi tvíefldar til baka.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, var á meðal þeirra sem fylgdust með leiknum frá EM-torginu. Hún sagðist stolt af stelpunum okkar eftir 1-1 jafntefli gegn Ítalíu.
„Þetta var mjög svekkjandi, ég hefði auðvitað viljað sjá þær vinna eins og við öll. Þær áttu það skilið, þær stóðu sig ótrúlega vel og eru búnar að taka kvennaknattspyrnuna á svo skemmtilegt og flott level að maður er mjög stoltur af þeim. Og markið hjá Karólínu var einstakt,“ sagði Áslaug við mbl.is.
Stuðningsfólk í miðbænum ætlar að halda áfram að styðja stelpurnar til sigurs í næsta leik.
„Þetta gekk ekki nógu vel. En kannski var þetta sanngjarnt í lokin, ég veit það ekki. Við hefðum átt að nýta þessi færi betur,“ sagði Axel Fannar, sem sat fremst ásamt fjölskyldu sinni.
Munið þið ekki mæta hingað aftur á næsta leik, að styðja Ísland?
„Algjörlega.“
„Þetta var svekkjandi, við hefðum átt að vinna þennan leik. Miðað við færin sem við fengum hefðum við átt að vinna þetta,“ sagði Björgvin, sem starfaði í sölubás á svæðinu. „En við vorum klárlega betra liðið í leiknum í dag.“
Katrín mætti á sinn fyrsta leik á EM-torginu í dag og gátu áhorfendur svalað þorstanum með fríum drykkjum úr bás þar sem hún starfaði.
Hún bjóst ekki við því að torgið yrði troðfullt: „Ég bjóst ekki við því að svona margir myndu mæta. Í byrjun voru fáir en síðan fjölgaði í hópnum,“ sagði hún létt. Stemningin hafi verið gríðarlega góð frá byrjun.