Ríkisstjórnin grípi til aðgerða vegna vefsíðu

Stjórnarráð Íslands.
Stjórnarráð Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Anti-Defamation League (ADL), sem berjast gegn gyðingaandúð, hafa hvatt ríkisstjórn Íslands til aðgerða gegn hópi sem hefur kortlagt og birt heimilisföng gyðinga í bandarísku borginni Boston.

Vefsíða hópsins er sögð vera hýst á Íslandi. „Nafnlaus hópur sem kallar sig The Mapping Project er að hóta samfélagi gyðinga í Boston með því að kortleggja og birta heimilisföng gyðinga og stofnana þeirra og krefjast þess að þessum einstaklingum og stofnunum verði „sundrað“,“ skrifaði forstjóri ADL, Jonathan Greenblatt, í bréfi sínu til í ríkisstjórnarinnar, að því er Jerusalem Post greindi frá.

„Þrátt fyrir að við virðum mjög tjáningarfrelsið þá fer þessi vefsíða yfir mörkin og er með beinar hótanir gegn einstaklingum og stofnunum.“

Að sögn ADL er The Mapping Project hýst á Íslandi af fyrirtækinu 1984 Hosting. Áður var vefsíðan hýst í Búlgaríu af Siteground.

ADL kveðst hafa haft samband við ríkislögreglustjóra á Íslandi og sendiherra Íslands í Bandaríkjunum vegna málsins en fékk ekki „fullnægjandi svör“. Jerusalem Post óskaði einnig eftir svörum frá Íslandi við vinnslu fréttarinnar en fékk ekki.

„Okkur þykir afar miður sú værukærð sem virðist einkenna afstöðu íslenskra embættismanna vegna hótana í garð samfélags gyðinga,“ skrifaði Greenblatt í bréfi sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert