Runólfur tekur undir með Birni Zoëga

Runólfur Pálsson er bjartsýnn á framtíð Landspítalans.
Runólfur Pálsson er bjartsýnn á framtíð Landspítalans. Mbl.is/Arnþór Birkisson

Run­ólf­ur Páls­son, for­stjóri Lands­spít­al­ans, tek­ur und­ir með Birni Zoëga, ný­skipuðum stjórn­ar­for­manni Land­spít­al­ans, að eðli­legt sé að end­ur­skoða skipu­rit spít­al­ans. Hann hlakk­ar til sam­starfs­ins við hina nýju stjórn og tel­ur bjart vera fram und­an.

Viðtal við Björn birt­ist í Morg­un­blaðinu í dag þar sem hann ræddi áskor­an­ir spít­al­ans og mögu­leg­ar lausn­ir á þeim. 

Spurður hvort skrítið sé að fá fyrr­ver­andi for­stjóra spít­al­ans sem stjórn­ar­formann seg­ir Run­ólf­ur svo ekki vera, þeir hafi átt í ágætu sam­starfi fram til þess.

„Þeim mun frek­ar vil ég nýta mér þá miklu reynslu og þekk­ingu sem Björn hef­ur á rekstri stórra sjúkra­húsa. Hann hef­ur auðvitað náð framúrsk­ar­andi ár­angri í starfi sínu á Karol­inska há­skóla­sjúkra­hús­inu. Ég vænti þess að þetta verði ár­ang­urs­ríkt sam­starf.“

Skoða þurfi hvert starf fyr­ir sig

Björn sagði við Morg­un­blaðið að ástæða væri til að ein­falda stjórn­skipu­lag Land­spít­al­ans. Tel­ur hann of margt starfs­fólk á spít­al­an­um sem ekki er að vinna við það að þjón­usta sjúk­linga, en það vakti at­hygli á sín­um tíma þegar Björn sagði upp nokk­ur hundruð mill­i­stjórn­end­um hjá Karol­inska.

Run­ólf­ur tel­ur eðli­legt að end­ur­skoða skipu­rit spít­al­ans af og til. Það sé mik­il­vægt að stjórn­skipu­lag sjúkra­húsa sé ein­falt og skil­virkt þannig að unnt sé að taka skjót­ar ákv­arðanir sem nýt­ast not­end­um þjón­ust­unn­ar. Hann seg­ist ekki geta sagt til um hversu marga mill­i­stjórn­end­ur væri hægt að losna við, greina þurfi hvert starf fyr­ir sig.

„Ég tek und­ir það að við þurf­um að end­ur­skoða skipu­rit spít­al­ans og ég hef talað fyr­ir því sjálf­ur. Það þarf að skoða mjög vel hvaða út­færsla hent­ar okk­ur best,“ seg­ir hann og bæt­ir við:

„Það þarf að skoða hvert ein­asta starf og tryggja að stjórn­skipu­lagið styðji vel við þá þjón­ustu sem spít­al­inn veit­ir. Það er vinna sem þegar er haf­in.“

Jafn­framt seg­ir hann að end­ur­skoða þurfi hlut­verk spít­al­ans til að hjálpa við að leysa mönn­un­ar­vand­ann, en hann tel­ur hlut­verk spít­al­ans mjög víðtækt í ís­lenskri heil­brigðisþjón­ustu. 

„Spít­al­inn er að sinna ýms­um verk­efn­um sem að ættu jafn­vel heima á öðru þjón­ustu­stigi. Það hef­ur svo áhrif á mannauðinn og þörf­ina fyr­ir mannafla.“

Nefn­ir hann sér­stak­lega verk­efni á sviði öldrun­arþjón­ustu og bráðaþjón­ustu. Þannig dvelji fjöldi ein­stak­linga lang­dvöl­um á spít­al­an­um eft­ir að meðferð þeirra á spít­al­an­um lýk­ur vegna þess að þeir kom­ast ekki í önn­ur úrræði, það kosti einnig mannauð.

Starfs­menn þurfi að vera sveigj­an­leg­ir

Björn seg­ir jafn­framt að end­ur­skoða megi hvernig verka­skipt­ingu inn­an spít­al­ans sé háttað. Sem dæmi nefndi hann að þegar hjúkr­un­ar­fræðing­ar eru ráðnir í Finn­landi séu þeir ráðnir á spít­al­ann, ekki bara ákveðna deild. 

„Við þurf­um að hafa sveigj­an­leika þannig að hjúkr­un­ar­fræðing­ur hafi þekk­ingu til að sinna störf­um á ein­staka deild­um en geti líka unnið á milli deilda,“ sagði Björn.

Run­ólf­ur tek­ur und­ir með Birni.

„Ég er sam­mála því. Við erum í raun á kross­göt­um hér, reynd­ar eins og mörg sjúkra­hús ann­ars staðar. Það er mik­il mann­ekla í röðum heil­brigðis­starfs­manna. Hún kem­ur mis­mun­andi niður á hinum ýmsu ein­ing­um og við verðum að geta brugðist við því og við verðum að hafa meiri sveigj­an­leika en við höf­um haft fram til þessa.“

Þá seg­ir hann að einnig megi end­ur­skoða hlut­verk ein­stakra heil­brigðis­stétta, nýta þurfi ýms­ar stétt­ir bet­ur. 

Tæki­færi til fjölg­un­ar

Björn tel­ur skjóta skökku við að vera með kvóta á fjölda nem­enda í heil­brigðis­geir­an­um, þar sem að þörf­in á auknu vinnu­afli er mik­il. Tel­ur hann spít­al­ann geta menntað fleiri en hann hef­ur gert.

Run­ólf­ur tel­ur að tæki­færi séu til að fjölga nem­end­um á spít­al­an­um en bend­ir jafn­framt á að nem­end­um í bæði lækn­is- og hjúkr­un­ar­fræði hafi verið fjölgað á síðustu árum.

Hann seg­ir að til þess að hægt verði að taka á móti enn fleiri nem­end­um þurfi að þróa innviði spít­al­ans þar að lút­andi og sama eigi við um ýms­ar aðrar heil­brigðis­stofn­an­ir sem komi að kennslu og hand­leiðslu nem­enda í heil­brigðis­vís­inda­grein­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert