Það er ekki á hverjum degi sem kylfingum tekst það afrek að fara holu í höggi, hvað þá þegar draumahöggið er slegið oftar en einu sinni. Hafsteinn Gunnarsson hjá golfklúbbnum Leyni fór holu í höggi á Garðavelli á Akranesi á mánudaginn og fór svo aðra holu í höggi í gær.
Hafsteinn hafði aldrei áður farið holu í höggi fyrr en á mánudaginn og var því skiljanlega mjög kátur þegar blaðamaður mbl.is heyrði í honum í dag.
„Þetta var alveg fáránlegt. Ég sló þarna 18. holuna hérna uppi á Skaga og svo förum við aftur í golf á fimmtudeginum og þá kom þetta aftur á 8. holu. Það er eins gott að spila í lottóinu. Þetta er einhver lukkuvika,“ segir Hafsteinn og hlær.
Hann segir að einhverjir efist örugglega um afrek sitt en hópur af fólki hafi orðið vitni að skoti hans. Hann átti erfitt með að trúa eigin augum þegar kúlan rúllaði ofan í holuna.
„Ég sló á 18. holunni með áttu-járni, þetta voru sirka 116 metrar í pinnann. Á 8. holunni sló ég með sex-járni og það var sirka 138 metrar í pinnann. Bæði skotin voru aðeins á móti vindi en boltinn flaug vel og lenti fyrir framan og rúllaði í.“