Icelandair hefur þurft að fella niður tvö flug frá Heathrow-flugvelli í London til Keflavíkur. Annað flugið var áætlað í dag klukkan 13.05 og hitt 19. júlí. Þetta er gert vegna krefjandi aðstæðna á flugvellinum.
Þetta segir upplýsingafulltrúi Icelandair, Guðni Sigurðsson, í skriflegu svari við spurningum mbl.is. Hann undirstrikar að þetta hafi bara áhrif á ferðir frá flugvellinum en áætlun haldist eins til flugvallarins.
Á miðvikudagskvöldið tilkynntu bresk flugmálayfirvöld um takmarkanir flugs frá Heathrow-flugvelli vegna krefjandi aðstæðna á flugvellinum. Til að draga úr fjölda farþega á meðan aðstæður eru eins og þær eru á vellinum er flugfélögum gert að fella niður ákveðin flug.
„Vegna þessa hefur þurft að aflýsa tveimur flugferðum Icelandair frá Heathrow-flugvelli til Keflavíkur, flug sem áætlað var klukkan 13.05 í dag (FI-451) og síðdegisflug þann 19. júlí (FI-455),“ segir Guðni.
„Þessar kröfur breskra yfirvalda komu með mjög stuttum fyrirvara og starfsfólk Icelandair hefur unnið hörðum höndum að því að finna lausnir fyrir farþega sem eiga bókað í þessi flug og mun upplýsa farþega um leið og þær liggja fyrir.“