„Munum margfalda fólksfjöldann á Hvolsvelli“

Keppendur nýta alla gistingu sem er til í nágrenninu.
Keppendur nýta alla gistingu sem er til í nágrenninu. Ljósmynd/Arnold

Það má áætla að fólksfjöldi á Hvolsvölli margfaldist þegar malarhjólakeppnin Rift verður haldin þar þann eftir rúmlega viku, eða 23. júlí. Hátt í 1.100 manns skráðu sig til leiks og þar af voru aðeins 100 keppendur Íslendingar, en gisting á svæðinu hefur meira og minna selst upp.

Gera frí úr keppninni

Skráning á hjólamótið seldist upp á 14 mínútum að sögn Ólafs Thorarensen, markaðsstjóra íslenska hjólaframleiðandans Laufs, en fyrirtækið stendur að baki keppninni. 

„Flestir sem sækja keppnina eru erlendir ferðamenn sem taka sér frí með maka eða fjölskyldu alveg frá fimmtudegi og fram á sunnudag,“ segir Ólafur og kveðst áætla að tæplega tveir gestir komi með hverjum keppenda sem kemur að utan.

„Ég held við munum vægast sagt margfalda fólksfjöldann á Holsvelli yfir helgina, en keppendur eru að nýta sér alla gistingu þarna og þurfa sumir að gista lengra frá, til dæmis á Selfossi.“

Á Hvolsvelli búa um eitt þúsund manns.
Á Hvolsvelli búa um eitt þúsund manns.

Fátt um gistingar á svæðinu

Hótel og gistihús í kringum Hvolsvöll eru mörg hver fullbókuð yfir helgina, en Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár, staðfestir þetta og segist draga þá ályktun að um 20% af bókunum þessa helgi séu frá keppendum á mótinu. 

Ólafur kveðst undirbúinn þar sem keppendur taki að stóru leyti yfir tjaldsvæðin í kring og sérstaklega í ár vegna fjölda þáttakenda. 

Hugmynd sem var lengi í umræðunni

Fyrsta Rift-keppnin var haldin árið 2019 og voru þá um 220 keppendur sem tóku þátt, en hugmyndin hafði verið í umræðunni meðal áhugamanna hjólreiða í þónokkurn tíma. Ekkert varð af keppninni 2020 vegna faraldursins, en í fyrra voru þátttakendur á fjórða hundrað.

Hægt er að velja um þrjár vegalengdir til að keppa í, 200 km keppnin er vinsælust og eru 800 manns skráðir í hana í ár, en annars er keppt í 100 km og 45 km vegalengd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka