Sigríður Ingvarsdóttir hefur verið ráðin bæjarstjóri Fjallabyggðar fyrir kjörtímabilið 2022 til 2026. Alls sóttu 22 manns um starfið og drógu átta umsóknir síðar til baka.
Sigríður er fyrrverandi forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, en eins hefur hún átt sæti á Alþingi og setið í bæjarstjórn á árum áður.
Sigríður er m.a. með MBA-gráðu frá Háskóla Íslands og diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu. Þá hefur hún setið í fjölmörgum stjórnum, nefndum, ráðum og starfshópum og sinnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir hin ýmsu ráðuneyti.
Sigríður mun formlega taka við starfi bæjarstjóra að loknum sumarleyfum en fram að þeim tíma mun hún vinna að ákveðnum málum í samvinnu við bæjarstjórn.