Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hyggst leggja fram frumvarp um afnám refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum.
Keimlíkt frumvarp náði ekki fram að ganga fyrir ári síðan, í embættistíð Svandísar Svavarsdóttur fyrrverandi heilbrigðisráðherra.
13 manna starfshópur með fulltrúum víða að mun skilgreina dagskammta eða neysluskammta og er áætlað að setja þá skilgreiningu í reglugerð, sem lögð verði fram með endurbættu frumvarpi.
Markmið frumvarpsins er sagt munu verða að koma til móts við þarfir fólks sem veikast er í samfélaginu, úr hópi notenda ávana- og fíkniefna, í samræmi við þingsályktun sem samþykkt var árið 2014 sem miðar meðal annars að því að draga úr skaðlegum afleiðingum vímuefnaneyslu.
Starfshópurinn sem nú er að störfum hefur ákveðið að nefna frumvarpið afnám refsingar, þar sem talið er að afglæpavæðing neysluskammta endurspegli ekki nægilega vel hlutverk hópsins.