Óvissa ríkir um framtíð í Reykjavík. Nú dvelja þar 12 einstaklingar á langtímastæðum. Þeim var gert að yfirgefa svæðið yfir sumarmánuðina en eru þar enn. Óska þeir eindregið eftir að vera þarna áfram. Sumir leigutakar eru með lögheimili í Reykjavík en aðrir í öðrum sveitarfélögum.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, lagði fram svohljóðandi fyrirspurn á fundi borgarráðs hinn 10. júní síðastliðinn:
„Hversu langur er biðlisti eftir langtímastæðum og hvernig gengur að finna nýtt úrræði fyrir íbúa í hjólhýsa- og húsbílabyggð Laugardalsins? Vitað er að samningur rennur út í lok maí og íbúar á svæðinu þurfa langtímalausn.“
Ofangreindar upplýsingar koma fram í svari Ómars Einarssonar, sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur, sem lagt var fram í borgarráði 23. júní.
„Að fenginni reynslu er ljóst að ekki fer alltaf vel saman rekstur tjaldsvæðis fyrir innlenda og erlenda ferðamenn og langtímasvæði fyrir húsbílaeigendur miðað við núverandi aðbúnað,“ segir Ómar m.a. í svari sínu.
Hann segir enn fremur að bent hafi verið á ýmsa staði í borgarlandinu þar sem koma mætti upp aðstöðu fyrir langtímastæði húsbíla. Hins vegar yrði kostnaðasamt að útbúa slíkt svæði svo sem vegna rafmagns, vatns, stæða o.fl. Kostnaðurinn gæti hlaupið á 60-100 milljónum króna.
„Nauðsynlegt er að horfa til framtíðarlausnar í þessu sambandi,“ segir Ómar og bætir við að skoða þurfi hvort slík stæði yrðu áfram í Laugardal eða annars staðar í borginni.
Í þessu sambandi er rétt að rifja upp að í fyrrahaust óskaði íþrótta- og tómstundasvið eftir viðræðum við skipulagsfulltrúa um mögulega staðsetningu á svæði fyrir langtímabílastæði fyrir húsbíla.
„Einkaaðili á markaði gæti þjónustað þá gesti á sínu landi sem hafa nýtt sér Laugardalinn hingað til, frekar en að borgin útvegi land, setji upp grunnþjónustu og sinni rekstri,“ sagði skipulagsfulltrúinn m.a.í svari sínu.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, Kolbrún Baldursdóttir, lagði fram bókun um málið á borgarráðsfundinum 23. júní: „Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þessum hópi, einna helst vegna þess að hann lifir í stöðugri óvissu. Ekkert hefur gengið að finna nýtt úrræði til framtíðar fyrir íbúa í hjólhýsa- og húsbílabyggð Laugardalsins. Í mörg ár hefur verið rætt um að finna verði langtímalausn en allt gengur það á hraða snigilsins,“ segir Kolbrún.
„Fulltrúi Flokks fólksins óttast að til standi af hálfu borgarinnar að reyna að losna við þennan hóp í stað þess að meðtaka hann sem hluta borgarbúa og finna honum viðeigandi aðstæður fyrir húsbílabyggð. Hvernig sem litið er á málið þarf að vera lóð í boði fyrir hjólhýsa- og húsbílabyggð. Úthlutun lóðar er á ábyrgð borgarinnar en ekki einkaaðila.“