Landhelgisgæslan flutti konu úr Laugavegshlaupinu í dag eftir að hún veiktist skyndilega í miðju hlaupi.
Að sögn Silju Úlfarsdóttur, eins skipuleggjenda hlaupsins, er konan í stöðugu ástandi og með meðvitund.
„Hún er í lagi og er komin í góðar hendur núna,“ segir Silja. Hún segir að konan hafi ekki dottið eða slasað sig í hlaupinu heldur hafi hún skyndilega orðið mjög slöpp.
Landhelgisgæslan staðfestir í samtali við mbl.is að konan hafi verið flutt á Landspítalann.