Jakob Veigar Sigurðsson hefur komið sér vel fyrir í Vínarborg og hann er ekki frá því að stúdíóið hans við Rechte Bahngasse í þriðja hverfi sé eitt hið glæsilegasta í miðborginni. Starfsbræður hans Bergur Nordal og Hallgrímur Árnason eru einnig á uppleið í málaralistinni í Vínarborg.
Rætt er við málarana þrjá í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Sumarið var að koma í Vín þegar Morgunblaðið leit við hjá þeim félögum í vor. Borgarbúar nutu matar og drykkjar í fagurgrænum görðum eða lásu í bók í sólinni. Torgin iðuðu aftur af lífi eftir samkomutakmarkanir í faraldrinum.
Stúdíó Jakobs Veigars við Rechte Bahngasse er í göngufjarlægð frá hjarta borgarinnar.
Hann segir það útheimta mikla vinnu að vera myndlistarmaður í Vín en að listamenn njóti þess að umhverfið sé mjög hliðhollt listamönnum.
„Það er mikið í gangi og löng hefð fyrir því að kaupa og safna myndlist,“ segir Jakob Veigar.
Jakob Veigar undirbýr nú sýningar í Vín í haust og í Anant Art galleríinu í Delhí í vetur. Þaðan liggur leiðin til Kaliforníu þar sem hann mun, ásamt öðrum íslenskum listamönnum, sýna í Axix Gallery í Sacramento.
Listunnendur á Íslandi þurfa ekki að leita langt yfir skammt heldur geta nú séð sýningu hans í Portfolio Gallerí á Hverfisgötu 71 í Reykjavík.
Leiðin liggur næst í Listaakademínuna í Vínarborg þar sem Bergur Nordal tekur á móti blaðamanni og sýnir honum svo glæsileg salarkynnin.
Bergur útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2019. Hann var eina önn skiptinemi við Listaakademína í Vín og líkaði skólasvistin svo vel að hann sótti um inngöngu í akademíuna.
„Ég fór til Vínar af því að Listaakademían hefur sérstöðu sem listaháskóli. Hér fær maður þann tíma sem maður þarf til að búa til handbragð. Ef ég færi til dæmis í meistaranám í Norður-Evrópu fengi ég ekki þennan mikilvæga tíma til þess að sökkva mér í málverkið,“ segir Bergur sem hefur náð góðu valdi á list sinni og mótað sinn eigin myndheim.
Hallgrímur Árnason hefur síðastliðin tvö ár stundað nám við myndlistardeild Listaakademíunnar og verður komandi vetur gestur í bekk Daniels Richter við sömu stofnun.
En leiðbeinandi hans, Richter, er þekktur listmálari í Evrópu.
Hallgrímur hafði getið sér nafns sem hönnuður í Vínarborg þegar hann varð hugfanginn af málverkinu í kórónuveirufaraldrinum.
Fyrsta myndlistarsýningin sem Hallgrímur tók þátt í var listamessan PARALLEL VIENNA árið 2020. Önnur sýningin var samsýning í Wolkersdorf, í útjaðri Vínar, í vor en þar sýndi hann verk ásamt kennaranum Franz Wiebmer og tveimur öðrum nemendum við akademíuna.
Þar áður hafði Hallgrímur tekið þátt í hönnunarsýningum í Austurríki og nágrannalöndum og meðal annars verið einn fulltrúa Austurríkis á Hönnunarvikunni í Zagreb ásamt því að hafa sýnt stólahönnun í MAK-safninu í Vín, einu virtasta hönnunarsafni Evrópu.
„Nú hef ég hins vegar lagt hönnunina á hilluna og er eingöngu að mála,“ segir Hallgrímur sem hyggst sýna verk sín á Íslandi.