Ofurölvi eldri kona var handtekin í miðbæ Reykjavíkur rétt eftir klukkan 10 í gærkvöldi. Konan gat ekki staðið sökum ölvunar, neitaði að gefa lögreglu upp kennitölu og hótaði lögreglumönnum við afskipti þeirra.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en konan var vistuð sökum ástands í fangageymslu lögreglu. Hún hafði einnig verið vistuð síðustu nótt fyrir sama ástand og verður hún kærð fyrir brot á lögreglusamþykkt.
Rétt eftir klukkan fjögur í nótt var karlmaður handtekinn í miðbænum en hann var einnig ofurölvi.
Um það bil þremur klukkustundum áður hafði borist tilkynning um manninn sem hafði þá dottið og rekið höfuðið í götuna.
Þá hafði sjúkrabifreið komið en ekki var talin ástæða til að flytja manninn en hann sagður mjög ölvaður. Maðurinn gat ekki sagt lögreglu hvar dvalarstaður hans væri og var því vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.
Þá voru tveir menn handteknir í Hafnarfirði grunaðir um líkamsárás. Mennirnir voru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Árásarþoli var fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á bráðamóttöku. Ekki er vitað um áverka.