Nokkur fjöldi fólks mætti á mótmæli Samtaka grænkera á Íslandi gegn hvalveiðum á Austurvelli í gær.
Fyrirlesarar á mótmælunum leiðréttu ýmsan misskilning hvað varðar hvalveiðar, að sögn Valgerðar Árnadóttur, formanns Samtaka grænkera á Íslandi.
„Til dæmis þann misskilning að hann sé að éta frá okkur fiskinn í sjónum og að við þurfum að veiða hann til þess að hafa meiri fisk, þegar það er akkúrat öfugt. Hann er að stuðla að því að það sé meira æti fyrir fiskinn í sjónum,“ segir Valgerður.
Edda Elísabet Magnúsdóttir, doktor í sjávarlíffræði, fjallaði um mikilvægi þess að hvalir séu til staðar svo svif geti fjölgað sér en fiskur nærist meðal annars á svifi. „Ef við horfum á þetta frá líffræðilegu sjónarhorni, þá er þetta algjörlega galið,“ segir hún. Fólki auk þess blöskri það hvernig hvalur þjáist þegar hann er drepinn.
Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður, fjallaði þá um sögu hvalveiða. Kom fram í máli hennar að Íslendingar hefðu byrjað að veiða hval fyrir hundrað árum.
„Síðan má benda á að einn hvalur bindur á ævi sinni jafnmikið kolefni og 1.000 tré. Þetta er í rauninni svokallað vistmorð, að gera þetta. Á sama tíma erum við að berjast við loftlagsvá. Þetta skýtur skökku við, og um leið eru stjórnvöld að fjármagna verkefni eins og Carbfix til þess að fanga kolefni,“ segir hún, en á sama tíma geri hvalur nákvæmlega það sama. Samtökin krefjast þess að hvalveiðar verði bannaðar en Ísland er eitt þriggja ríkja í heiminum þar sem hvalveiðar eru enn heimilaðar.
Þær eru enn löglegar í Noregi og Japan og Færeyingar stunda grindardráp á sumrin.
Þann 12. júlí höfðu þrjátíu langreyðar verið veiddar á þessari vertíð en bræla og þoka hafa hamlað veiðunum að undanförnu. Breyting Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra á reglugerð um hvalveiðar er nú í samráðsgátt stjórnvalda en þar er lagt til að skipstjórar hvalveiðiskipa tilnefni dýravelferðarfulltrúa úr áhöfn, sem ber ábyrgð á því að rétt sé staðið að velferð hvala við veiðar.