Segjast bjóða ókeypis ristilskimun í Kaplakrika

Boð Hatara kemur í kjölfar umræðu um tónleikana Rokk í …
Boð Hatara kemur í kjölfar umræðu um tónleikana Rokk í Reykjavík. Ljósmynd/Lilja Jóns

Alþjóðlega útgáfufyrirtækið Svikamylla ehf., sem sér um allar útgáfur á vegum hljómsveitarinnar Hatara, hyggst bjóða gestum og gangandi ókeypis ristilskimun í Kaplakrika þann 17. september.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Svikamyllu ehf., en viðburðurinn gengur undir nafninu „Skim í Krika“. Meðlimir Hatara munu sjálfir sinna skimun en „ábyrgjast þó ekki læknisfræðilega nákvæmni þeirra niðurstaða sem kunna að koma í ljós“.

Boð Hatara kemur í kjölfar umræðu um tónleikana Rokk í Reykjavík sem hafa vakið mikla athygli vegna gífurlegs kynjahalla. Tónleikarnir fara fram í Kaplakrika þann 17. september.

Salka Sól Eyfeld birti mynd af plakati tónleikanna á Twitter í gær, þar sem eru einungis karlar á mynd. „...meira svona Cock í Reykjavík?“ tísti Salka. Í kjölfarið skapaðist mikil umræða um fyrirhugaða tónleika.

„Skapa einstaka upplifun fyrir skimaða“

„Það er mikið gleðiefni að geta tilkynnt með gríðarlegu stolti þennan einstaka viðburð í íslensku heilbrigðisstarfi,“ er haft eftir Klemensi Nikulássyni Hannigan, öðrum söngvara Hatara.

„Öll umgjörð og utanumhald skimana verður með allra besta móti sem gerist hér á landi til að skapa einstaka upplifun fyrir skimaða,“ bætir Matthías Tryggvi Haraldsson, söngvari Hatara, við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert