Ólafur Arnarson, fyrrverandi formaður Neytendasamtakanna, segist ekki sjá eftir pistli sínum í Fréttablaðinu í kjölfar umfjöllunar um mögulegan ritstuld Sigmundar Ernis Rúnarssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, í Morgunblaðinu í dag.
Í pistlinum segir Ólafur að enginn hjá Fréttablaðinu hafi orðið uppvís að ritstuldi.
Pistill Ólafs birtist í Fréttablaðinu í dag undir fyrirsögninni Grjóti kastað úr glerhúsi. Í pistlinum tekur Ólafur fyrir gagnrýni Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar á starfsfólk Fréttablaðsins.
Hannes gagnrýndi starfsfólkið í færslu á Facebook og sagði Kolbrúnu Bergþórsdóttur hafa verið eina almennilega blaðamanninn á snærum Fréttablaðsins áður en henni var sagt upp í júní.
Rifjar Ólafur upp þegar Hannes var dæmdur fyrir ritstuld á höfundarverki Halldórs Kiljan Laxness árið 2008.
Þá segir hann í pistli sínum: „Öfugt við prófessor Hannes hefur enginn blaðamanna Fréttablaðsins orðið uppvís að því að reyna stilla fram hugverkum annarra sem sínum eigin.“
Fjallað er í Morgunblaðinu í dag um mögulegan ritstuld Sigmundar Ernis ritstjóra Fréttablaðsins.
Þar kemur fram að grein Sigmundar frá árinu 1983 um Kristján Jónsson fjallaskáld sem birtist í helgarblaði DV sé að stórum hluta til skrifuð orðrétt eftir grein Tómasar Guðmundssonar borgarskálds um sama mann. Grein Tómasar er frá árinu 1968.
Ólafur segist þó ekki sjá eftir pistlinum og bendir á að þegar hann skrifaði pistilinn vissi hann ekkert um það að Morgunblaðið væri að skrifa um mál Sigmundar.
„Ég veit ekkert um þessa grein eða þetta mál. Ásakanir eru ekki það sama og að vera með hæstaréttardóm um ritstuld,“ segir Ólafur.
Hann kveðst líta svo á að ekkert hafi breyst síðan hann skrifaði pistilinn og að pistillinn standi fyrir sínu.