Tveir sækjast eftir embætti formanns Sambands íslenskra sveitafélaga (SÍS) en það eru þær Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Fresturinn til að bjóða sig fram til formanns rann út í gær og greindi SÍS frá því í tilkynningu í dag að Heiða og Rósa munu keppast um embættið.
Aldís Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði og fráfarandi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, hefur gefið út að hún muni ekki sækjast eftir áframhaldandi formennsku þar sem hún hefur tekið við starfi sveitarstjóra í Hrunamannahreppi. Hún er þar að auki ekki kjörgeng til formennsku samkvæmt samþykktum sambandsins þar sem hún mun hafa búsetu í Hrunamannahreppi.
Formannskosningarnar munu hefjast 15. ágúst og standa yfir í tvær vikur. Alls hafa 152 landsþingsfulltrúa atkvæðisrétt.