Allt að fimmtán einkaþotur á dag

Nokkrar einkaþotur á Reykjavíkurflugvelli í dag.
Nokkrar einkaþotur á Reykjavíkurflugvelli í dag. mbl.is/Björn Jóhann

Fjöldi einkaþota sem koma til Reykjavíkur, og fyrirtækið ACE FBO þjónustar, getur numið allt að 15 vélum á dag að sögn rekstrarstjórans Hákons Öder Einarssonar.

„Yfir suma mánuðina eru þetta rúmlega hundrað vélar á mánuði. Fyrir faraldurinn voru þetta rúmlega 124 vélar sem voru þennan mánuðinn árið 2019,“ segir Hákon í samtali við mbl.is.

„Núna erum við að horfa fram á það að þetta gæti jafnvel farið yfir 124 vélar,“ bætir hann við og bendir á að ACE FBO sé eitt af þremur fyrirtækjum sem þjónusta lúxusþotur og þar af leiðandi sé heildarfjöldi einkaþota sem koma til Íslands þennan mánuðinn mun meiri.

„Ísland er alltaf að verða heitari og heitari ferðamannastaður.“

Reykjavíkurflugvöllur mikilvægur fyrir einkaþotur

Hákon segir Reykjavíkurflugvöll vera mikilvægan. „Við höfum fengið kúnna til Íslands vegna þess að þeir geta lent beint í Reykjavík.“

Hann segir að ef færa eigi flugvöllinn þá þurfi fyrst að byggja nýjan flugvöll sem geti annað þessari eftirspurn. 

„Það þýðir ekki að henda allri þessari traffík yfir á Keflavíkurflugvöll sem er við það að springa. Við lentum í því í sumar að það kom vél til okkar sem ætlaði síðan að fara til Keflavíkur og fara þaðan snemma um morguninn vegna takmarkana og opnunartíma á Reykjavíkurflugvelli, og henni var bara meinað að koma því öll stæðin voru full."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka