Anthony Karl Gregory fékk óvenjulega heimsókn á dögunum. Ítalskur treyjusafnari sætti færis í sumarfríinu á Íslandi og nældi í keppnistreyju sem hann hefur lengi leitað að.
Anthony Karl var þekktur knattspyrnumaður hér heima á sínum tíma og varð bæði Íslands-og bikarmeistari í íþróttinni. Anthony lagði takkaskóna á hilluna árið 1998. Anthony er mörgum eftirminnilegur enda sá eini sem skorað hefur þrennu í bikarúrslitaleik hérlendis og var lykilmaður í liði KA sem sigraði óvænt á Íslandsmótinu árið 1989.
Árin hafa liðið og knattspyrnan er ekki endilega fyrirferðarmikil í lífi Anthony í dag í þeim skilningi að hann fór ekki út í þjálfun eða störf tengd sparkinu. Anthony var við vinnu sína í Landsbankanum þegar hann fór að fá símtöl utan úr heimi. Hann sinnti því ekki í fyrstu enda þekkjum við flest að fá alls kyns undarleg símtöl utan úr heimi frá óheiðarlegum lukkuriddurum.
Anthony áttaði sig þó smám saman á því að ítölskum manni var mjög umhugað um að komast í samband við hann. Í ljós kom að sá safnar knattspyrnutreyjum og hafði augastað á treyju Juventus frá keppnistímabilinu 1986-1987. Þá mættust Valur og Juventus í 1. umferð Evrópukeppni meistaraliða.
„Hann sendi mér skilaboð og útskýrði málið. Ég sá strax að þetta var ekki venjulegt erindi og þarna væri alvörusafnari á ferðinni. Ég skynjaði það strax. Við höfum verið í samskiptum í nokkrar vikur og hann sagðist vera á leið til Íslands í frí með fjölskyldunni,“ segir Anthony í samtali við Sunnudagsblaðið.
Sá ítalski heitir Nino Spampinato og á yfirgripsmikið safn af knattspyrnutreyjum ásamt bróður sínum Angelo. Spurði hann Anthony Karl hvort hann hefði ekki örugglega spilað á móti Juventus og skiptst á treyjum við andstæðing. Anthony var einungis tvítugur en var að vinna sig inn í sterkt lið Vals og kom inn á í heimaleiknum á móti Juventus.
Svo vildi til að Anthony hafði fengið Juventus-treyjur eftir báðar viðureignirnar haustið 1986. Aðra hafði hann gefið Halldóri Einarssyni í Henson í afmælisgjöf. Sú var úr leiknum á Laugardalsvelli en svo vel vildi til að Spampinato hafði meiri áhuga á treyjunni úr leiknum í Tórínó. Juventus var víst með tvær örlítið mismunandi útgáfur af aðalbúningi liðsins og bræðurna vantaði treyju eins og þá sem Juventus klæddist í fyrri leiknum gegn Val.
Nú var Nino Spampinato kominn í samband við leikmann úr Val sem átti slíka treyju og hamraði járnið á meðan það var heitt. Tók hann smá krók í fríi sínu á Íslandi og hélt til fundar við Anthony á heimili hans í Hlíðunum.
Greinina í heild sinni er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.