Hafa fengið hlýjar móttökur frá Íslendingum

Irína Nepeina og Júlia Kútsnítsénkó starfa hjá Varma.
Irína Nepeina og Júlia Kútsnítsénkó starfa hjá Varma. mbl.is/Karlotta

Irína Nepeina og Júlia Kútsnítsénkó eru flóttakonur frá Úkraínu og hafa fengið störf sem saumakonur hjá fyrirtækinu Varma. Irína er 50 ára gömul og kom til Íslands í apríl frá borginni Ódessa í Úkraínu og er saumakennari.

„Ég var að leita að kennslustarfi en fann ekkert og sá svo að Varma var að auglýsa eftir saumafólki,“ segir Irína.

Júlia, sem er 42 ára, kom til landsins frá Karkív í maí. Júlia var yfirmaður í saumaverksmiðju í Úkraínu og á að baki tuttugu ára reynslu á þessu sviði. Þær hafa starfað hjá Varma í um tvo mánuði.

„Okkur líður vel og hér er gott starfsfólk.“ Þær segja ánægjulegt að geta starfað við það sama hér á landi og í Úkraínu og eiga stjórnendum Varma margt að þakka.

Var í 40 daga í Úkraínu eftir að stríðið hófst

Irína á 30 ára gamla dóttur sem hefur búið í Dúbaí í þrjú ár, en sonur Júlíu er búsettur á Íslandi. Eiginmenn Irínu og Júliu eru aftur á móti í Úkraínu.

„Ég var í Ódessa í 40 daga eftir að stríðið hófst í febrúar. Eldflaugaárásir voru víða og hús voru gjöreyðilögð, þá tók ég ákvörðun um að fara. Þar sem Júlía bjó var einnig mjög hættulegt að vera og hús eyðilögðust,“ segir Irína um ástandið í landinu.

„Í svona aðstæðum þurfum við á hjálp að halda, og við fengum hana með því að koma hingað.“

Fengið mikla hjálp frá upphafi

„Alveg frá upphafi höfum við fengið mikla hjálp frá öllum. Við erum í mörgum Facebook-hópum og ef við höfum einhverjar spurningar eða okkur vantar eitthvað, þá getum við skrifað það inn og fáum alltaf svör. Við höfum fengið hlýjar móttökur frá fólkinu hér.“

Þær segjast kunna vel við Ísland og að hér sé mikil kyrrð. „Við höfum séð marga fallega staði. Þetta land er mjög ólíkt okkar landi og alla daga sjáum við eitthvað áhugavert.

Við höfum góða reynslu af Íslandi og ég held að annað úkraínskt fólk hér á landi sé á sama máli. Það er enn betra að hafa fengið starf hérna.“

Irína Nepeina og Júlia Kútsnítsénkó eru á meðal sex úkraínskra flóttamanna sem mbl.is ræddi við, sem hafa fengið atvinnu á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert