Kom frá Úkraínu og fékk starf tveimur vikum síðar

Kiríló Beidik kom til landsins ásamt eiginkonu sinni og þremur …
Kiríló Beidik kom til landsins ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum. mbl.is/Arnþór

Kiríló Beidik er 28 ára gamall og er meðal þeirra sem þurft hafa að flýja heimili sín í Úkraínu vegna ástandsins þar í landi. Hann kom til Íslands í mars ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum þeirra. Hann starfar nú sem bílstjóri hjá tækjaleigunni Tæki.is.

„Við komum hingað fyrir um það bil þremur mánuðum og ég fékk vinnuna tveimur vikum síðar. Það var verið að leita að bílstjóra og ég sá auglýsinguna á Facebook. Það er pólskur maður að vinna hérna og ég hafði samband við hann,“ segir Kiríló.

„Mér líkar starfið og þetta er gott fyrirtæki, mér finnst gaman að ferðast um á bílnum. Ég vinn frá mánudegi til föstudags.“

Með 8 ára son og tvær 6 ára dætur

Kiríló og eiginkona hans eiga einn átta ára son og tvær 6 ára dætur, en þær eru tvíburar. „Þeim líður vel. Sonur okkar mun líklega byrja í skóla í september, en dætur okkar fara annað hvort í skóla eða leikskóla, og þá í skóla á næsta ári,“ segir Kiríló.

„Þær eru náttúrulega sex ára en við sjáum til hvað skólayfirvöld segja, hvort þær fari beint í skóla eða hvort þau meti það svo að þær þurfi að bíða fram á næsta ár, við vitum það ekki.“

Þau hafa ekki fundið skóla fyrir börnin en eru að leita sér að íbúð fyrir fjölskylduna. Kiríló segist vonast til þess að finna íbúð í Hafnarfirði, þar sem hann vinnur. „Þegar við erum búin að finna okkur íbúð munum við reyna að finna skóla fyrir börnin okkar nálægt heimilinu.“

Kiríló segist kunna vel við Ísland og að hér líði þeim vel. Það hafi verið tekið vel á móti honum og fjölskyldu hans. Segir Kiríló að lokum að hann finni fyrir miklum stuðningi á meðal Íslendinga.

Kiríló Beidik er einn af sex úkraínskum flóttamönnum sem mbl.is ræddi við, sem hafa fengið atvinnu á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert