Talsvert var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Meðal annars voru afskipti höfð af manni rétt eftir miðnætti í miðbænum sem var í stunguvesti og með stóran hníf, eða sveðju, á veitingastað.
Í dagbók lögreglu kemur fram að maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann var kærður fyrir brot á vopnalögum og var síðan látinn laus. Vestið og hnífurinn var haldlagt og skýrsla rituð.
Rétt fyrir klukkan tíu í gærkvöldi voru afskipti höfð af manni í Hlíðunum. Maðurinn er grunaður um brot á vopnalögum og var rafbyssa haldlögð og skýrsla rituð.
Rétt fyrir klukkan fimm voru tveir ungir menn í annarlegu ástandi handteknir grunaðir um líkamsárás og fleira í miðbænum. Mennirnir voru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Í dagbókinni segir að ekki sé búið að bóka upplýsingar varðandi brotaþola.
Stuttu áður var annar maður í annarlegu ástandi handtekinn í miðbænum. Sá er grunaður um líkamsárás og sagður hafa verið að veitast að fólki. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Þá var tilkynnt um þjófnað í Kópavogi þar sem stolið var rútufelgum og dekkjum. Tilkynnandi sá aðila aka frá vettvangi og er málið nú í rannsókn.
Þó nokkrar bifreiðar voru stöðvaðar vegna ökumanns sem grunaður var um ölvun og/eða var undir áhrifum fíkniefna við akstur.