Kolfinna Jóhannesdóttir tekur við sem skólameistari Kvennaskólans næsta haustmisseri, en hún segir mikilvægt að stefnur og umbætur á skólastarfi komi innanfrá.
„Til að byrja með er mikilvægt að kynnast hjartslætti skólans, en það eru auðvitað starfsmenn, kennarar og nemendurnir," segir Kolfinna í samtali við mbl.is. Hún telur að gott skólaumhverfi einkennist af umbætum í samráði við nemendur og kennara.
„Ég hef mína sýn á skólanum, en hún er mjög lík Kvennaskólanum og ein af ástæðum þess að ég sótti um.“ Kolfinna segir það mikilvægt að halda í hefðir skólans samhliða þess að innleiða nýjar stefnur í skólastarfið.
Kolfinna hefur starfað í þó nokkrum stjórnarstöðum og komið að í skólaumhverfi áður þar sem hún var skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar 2011–2014. Hún telur almennt að fyrri reynsla muni nýtast henni vel til þróunarstarfs í skólanum.
Einnig hefur hún komið að fjölbreyttum verkefnum hjá menntamálastofnun. „Ég held að sú reynsla sem ég fékk í þessum verkefnum muni nýtast mér í þeirri áherslu sem í dag ríkir, en það hefur orðið mikil aukning á samþættingu þjónustukerfa og farsæld nemenda.“
Kolfinna er komin langt með doktorsnám þar sem viðfangsefnið er framkvæmd ríkjandi stefnu á framhaldsskólastigi og telur hún námið hafa henni veitt mikla innsýn í alþjóðlega strauma og stefnur, en að hennar sögn mun það hjálpa við ígrundun á stefnu skólans.
„Það er eðlilegt að með nýju fólki komi nýjar áherslu, en fyrst og fremst hlakka ég til að kynnast bæði starfsfólki og nemendum skólans."