„Þetta er bara ógeðslegt“

Pétur tók mynd af aðkomunni að fossinum.
Pétur tók mynd af aðkomunni að fossinum. Ljósmyndir/Pétur Einarsson

Pétur Einarsson leiðsögumaður, sem lagt hefur leið sína að Seljalandsfossi með reglulegu millibili síðastliðna áratugi, segist hálfpartinn skammast sín fyrir það hversu illa við Íslendingar höfum haldið utan um þessa náttúruperlu.

Aðkoman að Seljalandsfossi er að sögn Péturs ógeðsleg.

Hann segir framtíðarsýn skorta, hvað viðkemur aðkomu og eftirliti með vinsælum áfangastöðum á Íslandi.

Greiða þarf 700 krónur til að leggja á þessu bílastæði.
Greiða þarf 700 krónur til að leggja á þessu bílastæði.

Verið að blóðmjólka þetta

Pétur starfar sem leiðsögumaður í sumar og hefur gegnt því starfi oftar en einu sinni á lífsleiðinni. Fyrir fjórum áratugum sinnti hann starfinu með háskólanámi og segir hann lítið sem ekkert hafa breyst hvað varðar innviði og aðkomu á þessum ferðamannastöðum. 

„Það er bara verið að blóðmjólka þetta. Maður sér enga verði, það er enginn að fylgjast með. Ég bara trúi þessu ekki, að við séum ekki komin lengra,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„Þetta er bara ógeðslegt. Og þetta bílastæði, maður þyrfti að vera á risastórum jeppa til að komast yfir það út af holunum. Maður bara skammast sín fyrir það hvernig við höfum haldið utan um þetta. Við höfum bara ekkert gert.“

Hann bendir á að um sé að ræða afar vinsælan viðkomustað ferðamanna og slæm aðkoma bitni því á mörgum.

„Seljalandsfoss er bara þannig að það stoppa allir þarna. Þetta er eitt vinsælasta stopp á Íslandi.“

Salernisaðstaðan hefur að líkindum mátt muna fífil sinn fegurri.
Salernisaðstaðan hefur að líkindum mátt muna fífil sinn fegurri.

Ferðamenn undrandi

Aðspurður segist hann hafa orðið var við undrun ferðamanna, sem horft hafi gapandi á ruslið og aðkomuna við fossinn. Honum finnst að það verði að leysa þessi mál að landsvísu. Seljalandsfoss sé líklegast ekki eina dæmið um vanrækslu af þessu tagi hér á landi.

Hann nefnir sem dæmi þjóðgarða í Bandaríkjunum.

„Ég hef ferðast um þjóðgarðana í Kaliforníu í Bandaríkjunum og samanburðurinn við Ísland er svakalegur. Þeir hafa rosalega hefð fyrir þessu og það er mjög strangt tekið á þessum málum þar, varðandi til dæmis þrif, aðkomu og fjölda ferðamanna. Þetta er ekki flókið en við náum einhvern veginn ekki að leysa þessi mál fyrir allt landið.“

Pétri finnst ekki vera þörf á fleiri búðum og þjónustumiðstöðvum á áfangastöðum eins og Seljalandsfossi hér á landi. Heldur sé þörf á góðum salernum, gæslu og aðstoð, ásættanlegum bílastæðum og þrifnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert