„Það eru ekki komnar mælingar á þetta en við erum ekki að tala um einhverja machete eða eitthvað svoleiðis,“ segir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is um sveðjuna sem að maður klæddur í stunguvesti labbaði með inn á veitingastað í miðbænum rétt eftir miðnætti í nótt.
Machete er enska orðið yfir stóra sveðju sem er oftast um 30 til 45 sentímetra löng og er notuð til að klippa niður stórar plöntur eða sykurreyr.
Að sögn lögreglunnar er ekkert meira um málið að segja að svo stöddu en lögreglan lagði hald á sveðjuna og stunguvestið og manninum sleppt úr haldi. Þá segir lögreglan enn vera óljóst hvaða erindi maðurinn hafði inn á veitingastaðinn eða hvað vakti fyrir honum.
Lögreglan segir að þótt að sveðjan hafi ekki verið á stærð við machete-sveðju þá hafi hún samt verið talsvert stærri en hinn hefðbundni hnífur. „Þetta er alveg stærra heldur en venjulegur heimilishnífur.“
Spurð um líkamsárásirnar sem áttu sér stað í nótt segir lögreglan að engin stórfelld líkamsárás hafi átt sér stað og að enginn sé alvarlega slasaður. Þrír menn voru handteknir í nótt grunaður um líkamsárás.