„Hagsmunapot ríkisstofnunar“

Airbus H145-þyrlur eru notaðar í flestöllum nágrannalöndum.
Airbus H145-þyrlur eru notaðar í flestöllum nágrannalöndum. Ljósmynd/Gísli Matthías Gíslason

„Enn og aftur á að afvegaleiða umræðu um bætta bráðaþjónustu úti á landi, vegna hagsmunapots ríkisstofnunar sem ræðst með aðfinnslum sínum og gagnrýni gegn tillögum sérfræðinga á heilbrigðissviði til þess að tryggja sér frekara fjármagn til reksturs og leita með því út fyrir sitt lögbundna starfssvið,“ segir Sveinn Hjalti Guðmundsson, þjálfunarflugstjóri hjá Air Atlanta Icelandic og fyrrverandi flugstjóri í sjúkraflugi, í samtali við Morgunblaðið.

Hann sakar Landhelgisgæsluna um það að afvegaleiða umræðuna um sjúkraflutninga með afstöðu sinni gagnvart því að fá nýjar Airbus H145-sjúkraþyrlur til landsins. Airbus H145-þyrlurnar eru minni og ódýrari í rekstri en þyrlur Landhelgisgæslunnar.

Eins og Morgunblaðið hefur greint frá telur Landhelgisgæslan ekki þörf á nýjum þyrlum á Íslandi. Að mati hennar er hægt að stytta viðbragðstíma og auka hagkvæmni heilbrigðiskerfisins með því að nýta þyrlur Landhelgisgæslunnar betur. Að sögn Auðuns F. Kristinssonar, verkefnisstjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, er best að fullnýta núverandi þyrlukost.

Gagnrýnir afstöðuna harðlega

Sveinn segist þurfa að gera alvarlegar athugasemdir við þessar fullyrðingar Auðuns og telur þær á skjön við tillögur Fagráðs sjúkraflutninga, Félags bráðalækna og Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands.

Hann segir björgunarþyrlurnar sem Landhelgisgæslan heldur úti vera svo ólíkar nýju sjúkraþyrlunum að erfitt sé að bera þær saman. „Það er vandséð hvernig blanda eigi þeirra hlutverkum saman svo að skynsamlegt verði, hvað þá hagkvæmt,“ segir Sveinn. Hann nefnir að það kosti fimmfalt meira að reka þyrlur Landhelgisgæslunnar á hverja klukkustund miðað við nýrri og smærri H145-þyrlurnar.

Auðunn hélt því fram í samtali við Morgunblaðið að þyrlur án afísingarbúnaðar kæmu að takmörkuðu gagni á Íslandi en Sveinn vísar þessu á bug og segir afísingarbúnað ekki nauðsynlegan fyrir fyrirhugað hlutverk nýju þyrlnanna. Ítrekar hann að þessar þyrlur yrðu aðeins nýttar yfir landi í sjónflugi.

Sveinn tekur að auki fram að hann sé ekki að mæla með að sjúkraflutningar verði með öllu teknir úr höndum Landhelgisgæslunnar og segir mikilvægt að Landhelgisgæslan verði enn þá til taks við erfiðar aðstæður eða í slæmu veðri. Hann undirstrikar að ekki ætti að vera nauðsynlegt að nota þyrlur Gæslunnar í allt sjúkraflug á Íslandi.

„Að notast við núverandi flota Landhelgisgæslunnar í hvert einasta bráðaútkall er eins og ef leigubílstjórar myndu eingöngu notast við langferðabifreiðar fyrir hvern og einn farþega.“

Ítarlegri umfjöllun um málið má finna í Morgunblaðinu í dag, mánudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert