Nýlega hafa skemmdarverk verið unnin á sameign íbúa á Stúdentagörðunum við Suðurgötu. Meðal annars hefur þvottavél verið skemmd, þvotti kastað á gólfið og slökkvitæki falin.
Heiður Anna Helgadóttir, þjónustustjóri Stúdentagarða, staðfestir þetta í samtali við mbl.is en Ríkisútvarpið greindi fyrst frá.
Fyrrverandi íbúi fjölbýlishússins deildi myndum af skemmdarverkunum úr lokuðum Facebook-hópi íbúa á Twitter. Má meðal annars sjá mynd af grjóti sem skemmdarvargurinn setti í eina af þvottavélum hússins.
Ég ætlaði varla að trúa því sem að kom næst. Aðilinn tók risastórt grjót, setti í eina af fjórum sameignarþvottavélina og setti hana af stað. Hún er núna ónýt. 3/? pic.twitter.com/mF7b8vSwnc
— Arnar Liberalmálaráðherra (@arnar111) July 17, 2022
Heiður Anna segir að fyrir rúmri viku hafi Félagsstofnun stúdenta (FS) borist tilkynning um skemmdarverk. Þá hafi strax verið gripið til aðgerða og sé nú unnið að því að koma upp myndavélum í húsinu. Einnig var gripið til þess að læsa þvottahúsinu á fimmtudaginn.
„Þú þurftir lykil til að komast inn en þú gast farið út og hurðin skelltist án þess að hún læstist. Þá þurftir þú að læsa henni á eftir þér sem að íbúar gerðu ekki alltaf en nú skellist hún í lás. Enginn á í raun að komast inn án þess að vera með lykil.“
Spurð hvort FS gruni að um utanaðkomandi aðila eða íbúa sé að ræða segir Heiður Anna:
„Okkar fyrsta hugsun var að þetta gæti verið einhver utanaðkomandi. Núna er þó búið að gera það að verkum að þú kemst ekki inn nema með lykli en þetta virðist enn vera í gangi. Því eru nú meiri líkur en minni á að þetta sé íbúi.“