„Ísland er á milli tveggja lægða og því verður rólegur dagur í dag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.
Þar kemur fram að hæg breytileg átt verði á landinu í dag eða hafgola.
„Skýjað að mestu en sums staðar bjart, einkum á Norðausturlandi. Eftir hádegi myndast nokkrir skúrir á víð og dreif, einkum vestanlands. Hiti 10 til 17 stig, hlýjast norðaustantil. Seint í kvöld kemur lægð upp að suðurströndinni og þar verður austanátt og rigning.“
Þá segir í hugleiðingunum að á morgun verði lægðin komin austur af landinu og þá verði norðaustlæg átt með rigningu víða um landið.
„En þurrt að kalla vestantil og léttir til syðst á landinu um kvöldið. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast sunnantil. Eftir þriðjudag fylgja nokkrir rólegir dagar. Skýjað að mestu, dálítil væta af og til og frekar milt í veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.