Hljómsveitin Moses Hightower kom með nýjan hljóm í íslenskan tónlistarheim undir lok tíunda áratugarins með smáskífum og sinni fyrstu plötu, Búum til börn, sem kom út 2010. Í upphafi var sveitin skipuð þeim Andra Ólafssyni, bassaleikara og söngvara, Daníel Friðrik Böðvarssyni gítarleikari, Magnúsi Tryggvasyni Eliassen trommuleikara og Steingrími Karli Teague, hljómborðsleikara og söngvara.
Enn eru þeir að vinna saman Andri, Magnús og Steingrímur, sendu frá sér plötu á þarsíðasta ári og halda tónleika í Gamla bíói með Svavari Pétri Eysteinssyni, Prins Póló, næstkomandi föstudag. Þeir eru líka að iðja hver í sínu lagi, eins og til að mynda Steingrímur sem gaf út plötuna More Than You Know með söngkonunni Silvu Þórðardóttur fyrir stuttu.
Áður en að Moses Hightower-ævintýrið hófst hafði Steingrímur komið víða við í íslenskum tónlistarheimi, til að mynda spilað nýbylgjurokk með hljómsveitinni Ókind sem náði öðru sæti í Músíktilraunum 2002 og gaf út plöturnar Heimsenda 18 og Hvar í hvergilandi, en einnig hafði hann leikið jazz með ýmsum tónlistarmönnum og söngkonum, stundum sem íhlaupamaður, og ferðast um heiminn með Of Monsters and Men eins og hann rekur í Dagmálum sem hlusta má á með því að smella hér, en þar kemur meðal annars fram að hann hafi aldrei séð það fyrir sér að hægt væri að hafa tónlist að aðaðalstarfi.
Steingrímur segir að Andra Ólafssyni, bassaleikari og söngvari, kórfélagi hans úr MH sem var mjög áhugasamur um jazz, hafi langað að setja saman hljómsveit til að spila þannig músík. Þeir voru þó ekki að stofna jazzhljómsveit, heldur frekar sveit sem myndi spila jazzskotna tónlist áþekka því sem vinsælt var vestan hafs á sjöunda og áttunda áratugnum, rytmablús Bill Withers, Sly and the Family Stone, Stevie Wonder.
„Í dag eru margir að spila þannig tónlist en okkur leið þá eins og það væru ekki það margir að spila þannig dót, eins og okkur fannst almennilegt. Svo gátum við það eiginlega ekki heldur en það kom eitthvað annað í staðinn.“
Steingrímur var þá farinn að vinna aðra vinnu og hélt hann væri nú hættur í atvinnutónlist. „Ég var alltaf að segja yfirmanni mínum að ég þyrfti bara að spila smá sem ég væri búinn að lofa að gera, svo væri bara ein plata með einni hljómsveit sem ég þyrfti klára, ég færi nú ekki að hætta fyrr en það væri komið. Það var fyrsta Moses Hightower platan.“