Skoða byggingu vetnisverksmiðju á Reykjanesi

Helguvíkurhöfn.
Helguvíkurhöfn. Ljósmynd/Reykjaneshafnir

Reykjanesbær og fyrirtækið Iðunn H2 hafa undirritað viljayfirlýsingu við byggingu á vetnisverksmiðju í Helguvík með orkuþörf upp á 300 megavött. Bæjarstjóri í Reykjanesbæ segir að ekkert verði gert fyrr en niðurstöður koma úr áreiðanleikakönnun sem er í vinnslu.

Áætlað er að verksmiðjan gæti skapa um 30 störf, en bygging hennar gæti tekið allt að sex ár og ætti hún að geta framleitt um 40 þúsund tonn af vetni á hverju ári. Kjarninn greindi fyrst frá málinu í dag.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Ljósmynd/Aðsend

„Við gerðum viljayfirlýsingu við stofnendur og eigendur Iðunnar H2 og þau eru að vinna í málinu. Það er ekki fyrr en niðurstöður úr áreiðanleikakönnun sem þau gera sem eitthvað verður að frétta af þessu,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, í samtali við mbl.is.

„Við förum ekki í neinar framkvæmdir og gerum ekki neitt fyrr en þetta mál er komið lengra.“

Suðurnesjalína 2 verði að koma

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunnar, sagði 8. júlí í samtalið við Morgunblaðið að ekki væri til næg raforka á landinu fyrir nýja stóriðju. Deilt hefur verið um lagningu Suðurnesjalínu 2 en í fyrra neitaði sveitarstjórn Voga umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi á verkefninu. Kjartan Már segir lykilforsendu þess að vetnisverksmiðjan verði byggð á Reykjanesi vera að Suðurnesjalína 2 verði að veruleika.

„Hún er forsenda svo margs hérna á svæðinu að hún verður að koma til þess að geti orðið af þessu verkefni og fleirum,“ segir Kjartan Már.

Hver er hagur bæjarins ef af þessu verður?

„Það er náttúrulega að skapa störf. Það geta orðið 30 störf úr þessu þegar þar að kemur. Svo er það skipaumferð um Helgavíkurhöfn, því þau eru að hugsa um þetta til útflutnings,“ segir Kjartan.

Hafi undirritað viljayfirlýsingu um raforku

Auður Nanna Bald­vins­dótt­ir, framkvæmdastjóri og annar stofnandi Iðunnar H2 , tekur í sama streng í samtali við Kjarnann.

Auður Nanna Bald­vins­dótt­ir, framkvæmdastjóri Iðunnar H2.
Auður Nanna Bald­vins­dótt­ir, framkvæmdastjóri Iðunnar H2. Ljósmynd/Iðunn H2

„Við erum algjör­lega háð því að Suð­ur­nesja­lína tvö verði að veru­leika,“ segir Auður.

Hún segir þá að fyrirtækið hafi undirritað viljayfirlýsingar við nokkra raforkusala en upplýsingar um orkuþörf, uppsett afl í vetnisvinnslunni og framleiðslugeta á ári komi betur í ljos þegar físileikakönnunin liggur fyrir. Gildistími viljayfirlýsingarinnar er til loka þessa árs en gert er ráð fyrir því að könnunin verði kláruð á seinni hluta þessa árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert