Persónuvernd hefur til skoðunar notkun tæknilausna Google í skólastarfi hérlendis. Komi í ljós að persónuverndarlöggjöf sé ekki fullnægt gæti komið til þess að krómbækur (e. Chromebooks) verði bannaðar í skólum hérlendis, líkt og í Danmörku.
Þetta segir Vigdís Eva Líndal, staðgengill forstjóra Persónuverndar, í samtali við mbl.is.
Fimm sveitarfélög sem eru undir í úttekt Persónuverndar en úttektin er hluti af samevrópskri úttekt sem 22 aðrar persónuverndarstofnanir á EES-svæðinu taka þátt í.
Spurð hvort möguleiki sé á því að tölvurnar verði bannaðar hérlendis líkt og í Danmörku segir Vigdís það mögulegt. „Við erum nú þegar með eina ákvörðun sem varðar notkun Seesaw kennslulausnakerfisins hjá Reykjavíkurborg þar sem að Persónuvernd taldi að persónuverndarlöggjöfinni hafi ekki verið fullnægt við innleiðingu á því kerfi.
Þar var um að ræða svipuð álitamál, eins og flutning persónuupplýsinga til Bandaríkjanna og stjórn sveitarfélaganna á þeim upplýsingum. Þetta eru grunnatriði löggjafarinnar sem er verið að skoða aftur og aftur bæði hér heima og annars staðar í Evrópu.“
Búast má við að rannsókninni ljúki á haustmánuðum.