Ökumaður á fjórum nagladekkjum var stöðvaður af lögreglu miðsvæðis í Reykjavík í gær. Hann var ekki í öryggisbelti og bíllinn hafði ekki verið færður til endurskoðunar. Lögreglan greip til sinna ráða og fjarlægði skráningarmerki bílsins.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Einungis hálftíma síðar var kollegi fyrri ökumanns stöðvaður, en sá var einnig á bíl með fjórum nagladekkjum. Sá var reyndar í enn verri málum en sá sem nefndur er hér að ofan enda var hann ökuréttindalaus og hafði ítrekað brotið af sér. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hver örlög þessa ökumanns urðu.
Nagladekk eru bönnuð frá 15. apríl til 31. október ár hvert, með undantekningum þó. Engar slíkar undantekningar eru í gildi í Reykjavík nú þegar langt er liðið á júlímánuð.
Veruleg vandræði voru á ökumönnum í gær og í nótt, samkvæmt dagbókinni. Nokkuð margir voru stöðvaðir vegna hraðaksturs og gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna.
Sá sem ók hraðast var á 162 kílómetra hraða þegar lögreglan stöðvaði hann í Ártúnsbrekku klukkan hálf tvö í nótt. Þar er hámarkshraði 80 kílómetrar á klukkustund. Maðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum og var hann handtekinn. Sömuleiðis er maðurinn grunaður um vörslu fíkniefna en hann var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.
Um klukkan hálf ellefu í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um eld í ruslageymslu íbúablokkar í Kópavogi. Talsverður reykur var á svæðinu þegar viðbragðsaðilar mættu á svæðið en eldur hafði kviknað í ruslatunnu. Skemmdir voru þó minniháttar.