Tveir prestar valdir til þjónustu

Bolli Pétur (t.v.) og Sigurður Már Hannesson (t.h.)
Bolli Pétur (t.v.) og Sigurður Már Hannesson (t.h.)

Nýlega var gengið frá ráðningu tveggja presta í þjóðkirkjunni, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag, mánudag.

Valnefnd kaus sr. Bolla Pétur Bollason til að vera prest í Tjarnaprestakalli en það nær yfir Vatnsleysuströnd og hluta Hafnarfjarðar, þ.e. Ásland, Velli, Skarðshlíð og Hamranes. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, hefur staðfest ráðningu hans. Umsækjendur um starfið voru 11 talsins.

Sr. Bolli Pétur Bollason er fæddur á Akureyri 9. ágúst árið 1972 og ólst upp í Laufási við Eyjafjörð. Hann tók prestsvígslu 14. júlí árið 2002 og vígðist þá til þjónustu í Seljaprestakalli í Breiðholti.

Árið 2009 var sr. Bolli skipaður sóknarprestur í Laufásprestkalli og þjónaði þar til ársins 2018. Síðan hefur sr. Bolli sinnt afleysingastörfum í ýmsum söfnuðum á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars í Tjarnaprestkalli þar sem hann hefur nú verið ráðinn til þjónustu.

Þá kaus valnefnd sr. Sigurð Má Hannesson til að vera prest við Seljakirkju í Reykjavík og hefur biskup staðfest ráðningu hans. Umsækjendur um starfið voru 12 talsins.

Hinn nýi prestur mun meðal annars hafa æskulýðsmál á sinni könnu í hinu nýja starfi við kirkjuna.

Sigurður Már er fæddur 1990 og uppalinn í Reykjavík. Hann útskrifaðist með mag. theol.-próf frá Háskóla Íslands vorið 2020. Hann var vígður til prestsþjónustu hjá Kristilegu skólahreyfingunni í mars 2021. Jafnframt sinnti hann ýmsum verkefnum fyrir KFUM og KFUK.

Eiginkona sr. Sigurðar Más er Heiðdís Haukdal Reynisdóttir, verkefnastjóri hjá Háskóla Íslands. Þau eiga eina dóttur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert