Breytingar hafi orðið en mikilvægt að gera betur

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg.
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg. Ljós­mynd/​ECHR

Niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) mun ekki koma til með að hafa áhrif á niðurfelld mál þeirra níu kvenna sem hafa kært málsmeðferð íslenska réttarkerfisins til stofnunarinnar. Ef niðurstaða dómsins fellur þeim í hag mun það aftur á móti fela í sér viðurkenningu á að þær hafi verið beittar ranglæti innan réttarkerfisins. Þetta segir Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður kvennanna í samtali við mbl.is.

Níu konur hafa lagt fram kærur til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) á hendur íslenska ríkinu vegna málsmeðferðar. Þær höfðu allar lagt fram kærur m.a. vegna kynferðisofbeldis, heimilisofbeldis eða áreitni til lögreglu en mál þeirra voru felld niður eftir rannsókn lögreglu og var sú ákvörðun staðfest af ríkissaksóknara. 70 til 85% mála af þess­um toga eru felld niður áður en þau kom­ast inn í dómssal. 

Sigrún Ingibjörg segir álitaefnið vera hvort rannsóknir málanna sem voru niðurfelld hafi verið í samræmi við skyldur ríkisins líkt og kveðið er á um í Mannréttindasáttmála Evrópu.

Í tilfelli kvennanna telur Sigrún m.a. að málsmeðferðin og bið eftir skýrslutökum hafi verið of löng, jafnvel svo löng að mál fyrndist í fórum lögreglunnar. Því hafi málsmeðferðirnar ekki verið nógu skilvirkar.

Hafa skilað inn greinargerðum

Samkvæmt frétt rúv hefur íslenska ríkið og lögmaður kærenda skilað inn öllum greinargerðum og er málið í ferli hjá dómstólnum sem mun taka ákvörðun hvort málið verði tekið lengra eður ei. Óljóst er hvenær niðurstaða muni liggja fyrir.

MDE hefur þegar krafið ríkið svara um ástæðurnar baki þess að mál kvennanna voru felld niður. Samkvæmt greinargerðinni telur ríkið rannsókn málanna hafa verið forsvaranleg.

Það megi alltaf gera betur

„Í þessu felst viðurkenning á því ranglæti sem þær telja sig hafa orðið fyrir innan réttarkerfisins,“ segir Sigrún, spurð hvaða þýðingu farsæl niðurstaða skjólstæðinga hennar fyrir dóminum myndi hafa.

„Það getur verið ólík niðurstaða milli mála en ef Mannréttindadómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að rannsókn hafi ekki verið nægilega skilvirk þá vonar maður auðvitað að það kalli á einhvers konar yfirferð í þessum málaflokki,“ bætir Sigrún við og vísar þá til málsmeðferða ofbeldis- og kynferðisbrotamála.

„Það hefur ýmislegt verið gert undanfarin ár og ýmsar breytingar verið góðar en það má alltaf gera enn betur.“

Hún kveðst vona að MDE taki ákvörðun um að fara með mál kvennanna lengra en segir þó viðbrögð dómstólsins nú þegar, þ.e. að leita svara um hvers vegna málin hafi verið niðurfelld, bendir til þess að tilefni sé til að endurskoða enn frekar hvernig hægt sé að gera betur í þessum málaflokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert