Fyrsta strætóferð Guðjóns Sigurðssonar, formanns MND-félagsins, í 40 ár, endaði með því að hann sat fastur með barnabarni sínu á umferðareyju í Mjóddinni. Guðjón, sem notar rafmagnshjólastól, segir ástandið á svæðinu fjandsamlegt hreyfihömluðum.
Í tölvupósti sem Guðjón sendi Strætó segir hann frá því að honum hafi verið hleypt út á upphækkaðri eyju á eina staðnum þar sem var niðurtekt. Þá segist hann hafa vakið athygli bílstjórans á þessu, sem virti hann ekki viðlits heldur hélt áfram í símanum.
„Þarna beið ég þar til hún samkvæmt áætlun ók sína leið og ég komst niður. Þá leitaði ég niðurtektar til að við þyrftum ekki að fara um götuna. Engin niðurtekt reyndist vera og þurftum við að aka planið á enda til að finna gangstétt,” skrifar Guðjón.
„Ástandið á þessu Mjóddarsvæði er mjög fjandsamlegt hreyfihömluðum og krefst ég úrbóta á svæðinu strax. Öllu svæðinu með tilliti til hreyfihamlaðra og blindra sem eru þarna beinlínis í lífshættu,“ kemur m.a. fram í tölvupósti Guðjóns.
Hann kvartaði við Strætó sem sögðu að það væri á áætlun að fara í úrbætur í Mjóddinni á næstu misserum.
Guðjón segir í samtali við mbl.is að það eigi því ekkert að gera fyrr en eitthvað stórt gerist en á meðan sé svæðið mjög hættulegt. Aðstæður séu út í hött, enda sameiginlegt markmið að allir eigi að nota strætó.
Hann segir það þekkt að hreyfihamlaðir komist inn í strætó en komist síðan ekki út, þar sem strætóbiðstöðvar eru ekki í lagi.
Á léttari nótunum segir Guðjón þó að afastrákurinn, sem var með í för, hafi verið mjög ánægður með strætóferðina, þeir hafi ætlað í ævintýraferð og úr varð ævintýri.