Jazz og rólegheit við kertaljós

Steingrímur Karl Teague stofnaði hljómsveitina Moses Hightower með félögum sínum, Andra Ólafssyni, Daníel Friðrik Böðvarssyni og Magnúsi Tryggvasyni Eliassen, fyrir hálfum öðrum áratug. Fyrsta platan kom út 2010 og sló rækilega í gegn, enda bar hún með sér nýjan hljóm inn í íslenskt tónlistarlíf.

Þegar hann tók þátt í að stofna Moses Hightower var Steingrímur vel sjóðaur í músík, eins og hann segir frá í Dagmálsþætti sem hlusta má á hér, lærður jasspíanisti sem spilaði nýbylgjurokk með hljómsveitinni Ókind og jazz með ýmsum tónlistarmönnum og söngkonum. Hafði að auki ferðast um heiminn með hljómsveitinni Of Monsters and Men.

Í Dagmálsþættinum segir Steingrímur frá tilurð Moses Hightower og því hvernig hljómsveitin var stofnuð til að spila tónlist í anda Bill Withers, Sly and the Family Stone og Stevie Wonder, en „svo gátum við það eiginlega ekki, en það kom eitthvað annað í staðinn“, eins og hann orðar það.

Hljómurinn sem einkennir sveitina varð til á fyrstu æfingunni, eins og Steingrímur rekur söguna: „Fyrsti hittingurinn var í kjallara foreldra minna, eftir eitthvað FÍH sprell, jamsession eða eitthvað, fórum við heim til mín og þurftum að hafa svakalega lágt, því það voru allir sofandi heima, höfðum kertaljós og Zoom-upptökutæki í gangi og þar kom hljómagangurinn að titillagi fyrstu plötunnar, Búum til börn. Það var bókstaflega í fyrsta sinn sem við byrjuðum að spila saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert