Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir mikilvægt að benda á að ekki liggur fyrir tillaga, útfærsla eða frumvarp til laga um afnám refsingar neysluskammta.
Greint var frá því um helgina að Willum hygðist leggja fram frumvarp um afnám refsingar fyrir „veikasta hóp samfélagsins í tilteknum tilvikum með tiltekið magn og efni ávana- og fíkniefna“ og hafa áformin verið birt í samráðsgátt stjórnvalda.
Gagnrýnt hefur verið að einungis eigi að afnema refsinguna fyrir tiltekinn hóp fólks, slíkt sé ekki framkvæmanlegt og jaðarsetji fólk.
„Málið er í breiðu samráði í starfshópnum en honum var falið að skilgreina dagskammt eða neysluskammt í tengslum við breytingar á lögum um ávana og fíkninefni. Sú vinna er í raun forsenda framgangs málsins og það verkefni hefur ekki breyst,“ segir í svari Willums við fyrirspurn mbl.is.
Auk þess kemur fram í svarinu að 13 einstaklingar með fjölbreytta þekkingu og aðkomu að málaflokknum eiga sæti í starfshópnum.