Í von um að stuðla að auknum lestri almennings hefur fólkið sem stendur að baki vefsíðunnar Lestrarklefinn.is lagt hart að sér til þess að halda uppi lifandi bókmenntavef þar sem fjallað er um bókmenntir af öllu tagi, allt frá spennusögum og skvísubókum yfir í ljóð og fagurbókmenntir.
Ritstjórar Lestrarklefans, Katrín Lilja Jónsdóttir og Rebekka Sif Stefánsdóttir, voru gestir í nýjasta þætti Dagmála. Þar sögðu þær frá markmiðum sínum með rekstri vefsíðunnar, áhuga sínum á lestri og viðhorfi sínu til bókaumfjöllunar hér á landi.
Pennar Lestrarklefans eru duglegir að sinna þeim bókmenntategundum sem stundum eru taldar „ófínni“, svo sem afþreyingarbókmenntum á borð við skvísusögur.
„Þetta heitir Lestrarklefinn. Við viljum stuðla að auknum lestri. Við viljum að fólk lesi af því það gefur manni svo mikið, alla vega mér,“ segir Katrín.
„Fólk er ekkert endilega að sækjast í að lesa einhverjar þungar bókmenntir, ekki hinn almenni Jón og Gunna. Við erum það náttúrulega mörg, bara svona venjulegt fólk. Þá þarf auðvitað að fjalla um þessar bækur sem fólk er að lesa og er að tala um.“
Hún nefnir sem dæmi að svokallaðar skvísubókmenntir njóti mikilla vinsælda meðal almennings um þessar mundir og mikið sé gefið út af þeim.
Rebekka tekur undir: „Það er stór sveifla í þeim einmitt og það er svo gaman að við getum verið með umfjöllun um þær og hjálpað fólki við að velja.“
Afþreyingarbókmenntir af þessu tagi hafa svolítið átt undir högg að sækja og segir Rebekka að gott sé að upphefja þetta bókmenntaform.