Framkvæmdir eru nýlega hafnar á Rauðarárstíg, frá Bríetartúni í suðurátt að Hlemmi. Lokað var fyrir bílaumferð á Rauðarárstíg frá Bríetartúni við upphaf framkvæmda en áfram er opið frá Hverfisgötu. Tilkynnt verður síðar hvenær loka þarf fyrir bílaumferð sunnan megin. Verktakinn er Alma Verk ehf. Verklok eru áætluð vorið 2023 á öllum þáttum verksins.
Gatnamót við Bríetartún verða hækkuð upp og akstursrými afmarkað með tveggja og fjögurra sentímetra háum kantsteini, segir í verklýsingu. Gert er ráð fyrir hönnun götunnar í einum fleti og að akstursrýmið verði hellulagt.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.
Rauðarárstígur verður framvegis lokaður til suðurs við Gasstöðina á Hlemmi og með snúningshring fyrir fólksbíla í botni götunnar. Þetta verður breyting frá núverandi fyrirkomulagi með gegnumakstri bíla um götuna. Er þetta fyrsta skrefið í því að gera Hlemm bíllausan. Rafhleðslustæði verða nyrst í götunni og sleppistæði fyrir leigubíla.
Meðfram húsaröð við Rauðarárstíg verður aðkomusvæði íbúðarhúsanna, þar sem útfæra má, í samráði við húseigendur, tröppur, gróðurkassa með klifurgróðri og hellusvæði. Bekkir afmarka svæðið næst húsunum. Götutré með trjáristum verða meðfram götunni og regnbeð með fjölbreyttum gróðri. Lýsing í götunni verður með 4-5 metra háum LED götuljósum sem dreifa lýsingu á götuflötinn. Næst torgsvæðinu og Hlemmi verða stæði fyrir hreyfihamlaða. Breytingin hefur þau áhrif á Strætó að leiðir 16 og 17 munu ekki lengur stoppa við Rauðarárstíg heldur færast að Hlemmi Mathöll.
VSÓ ráðgjöf hannaði þennan hluta Rauðarárstígsins í samstarfi við umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar.