Skoða hvort stöðva þurfi umferð vegna sprenginga

Atvikið átti sér stað á Reykjanesbrautinni, í grennd við álverið.
Atvikið átti sér stað á Reykjanesbrautinni, í grennd við álverið. mbl.is/Árni Sæberg

Til skoðunar er hvort að stöðva þurfi umferð á Reykjanesbrautinni rétt á meðan að sprengja þarf vegna framkvæmda við veginn í grennd við álverið í Straumsvík. Þetta segir Guðmundur Mar Magnússon, sérfræðingur á sviði vinnuverndar hjá Vinnueftirlitinu. 

Grjót og hnullungar þeyttust út á Reykjanesbrautina í gær og yfir bíla á akbrautinni þegar að sprenging varð vegna framkvæmda á vegum undirverktaka Vegagerðarinnar. Ökumenn hemluðu og þeir bílar sem voru hvað næst atvikinu fengu grjót yfir sig. Enginn slasaðist þó og skemmdir á ökutækjum virðast hafa verið minniháttar.

Atvikið er nú til skoðunar hjá Vinnueftirlitinu og er gagnaöflun í gangi. Hefur m.a. verið farið fram á upplýsingar um hvaða kröfur voru gerðar á verktakann varðandi rýmingar.

Atvikið hafi verið lengra frá

Að sögn sjónarvotts sem mbl.is ræddi við í gær varð sprengingin örfáum metrum frá veginum. Guðmundur Mar segir það hins vegar ekki rétt heldur hafi atvikið verið um 30 metra frá veginum. 

Í morgun fór Guðmundur Mar á vettvang og fylgdist með verktakanum að störfum og gekk þá allt í sögu þegar að sprengt var.

Að sögn Guðmundar eiga gúmmímottur að vera yfir holunni sem sprengjan er staðsett í til að koma í veg fyrir grjótkast. Telur hann líklegt að ekki hafi verið nógu margar mottur í gær og því hafi grjót náð að finna sér leið í gegn og út á veginn.

Lokunin mögulega nokkrar mínútur

Guðmundur segir allt benda til þess að verktakinn hafi fylgt reglugerðum en svona tilfelli geti þó komið upp þar sem menn misreikna sig.

Þess vegna sé til skoðunar hvort að stöðva þurfi umferð á veginum rétt á meðan að sprengja þarf. Hann segir lokunina ekki þurfa að standa lengi yfir, mögulega örfáar mínútur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert