Nærri þrjátíu manns á vegum ÞG-verks starfa um þessar mundir við að byggja nýjar brýr á hringveginum, það er yfir Hverfisfljót og Núpsvötn, fyrir austan Kirkjubæjarklaustur. Vegagerðin bauð út þetta verkefni á síðasta ári í einum pakka, enda þótti það koma vel út.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.
„Gangurinn í framkvæmdunum er góður, enda þótt okkar menn hafi þurft að glíma við margt óvænt, rétt eins og fylgir þegar verið er að brúa jökulfljót. Slíkt getur fylgt í svona verkefnum,“ segir Þorvaldur Gissurarson, framkvæmdastjóri ÞG-verks, í samtali við Morgunblaðið.
Við Hverfisfljót er verkefnið að byggja þriggja hafa 74 metra metra langa stálbitabrú með steyptu gólfi. Brúin er ögn neðan við þá sem nú stendur og því fylgir að lagður er nýr vegur á þessum stað, rúmlega tveggja kílómetra spotti. Gert er ráð fyrir að mannvirki þetta verði tilbúið í september næstkomandi.
Verkefnið við Núpsvötn er öllu viðameira. Þar er byggð 138 metra brú, rétt ofan við þá sem nú stendur. Vinnuflokkur ÞG-verk, sem Sigurður Guðjónsson fer fyrir, kom á svæðið í apríl síðastliðnum. Er nú búið að steypa báða landstöpla og þrjá af fjórum millistöplum, sem á verður steypt gólf í fimm höfum. Lagður er nýr vegur að brúnni, 1,9 kílómetra langur kafli, auk þess sem útbúinn er útsýnisstaður á vesturbakka jökulfljótsins.
Auk brúnna yfir Hverfisfljót og Núpsvötn sá ÞG-verk einnig um smíði nýrrar brúar yfir Jökulsá á Sólheimasandi. Sú er 163 metra löng og er nánast tilbúin. Tafist hefur þóað opna fyrir umferð vegna viðgerða sem kom í ljós að ráðast þyrfti í eftir að steypumót voru fjarlægð. Úr því er nú verið að bæta. Um helgina voru múrarar á svæðinu að bæta úr því sem þarf í köntum við handrið.
Brúin yfir Jökulsá verður opnuð síðsumars. Nánari tímasetning liggur ekki fyrir, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni í gærdag.