Portúgalskur karlmaður hlaut í byrjun mánaðarins fimm mánaða dóm, sem að hluta er skilorðsbundinn, eftir að hafa verið fundinn sekur um innflutning á tæplega 335 gr. af kókaíni sem var með 69-72% styrkleika, en efnin voru ætluð til sölu hér á landi.
Maðurinn kom með flugi frá Helsinki í Finnlandi í apríl, en hann faldi efnin í líkama sínum, samtals 34 pakkningar. Umbúðir þeirra rofnuðu hins vegar með þeim afleiðingum að maðurinn veiktist alvarlega og þurfti hann skurðaðgerð á Landspítalanum til að ná efnunum út.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að maðurinn hafi játað brot sín skýlaust. Þá er um fyrsta brot hans að ræða og er talið að hlutverk hans hafi einskorðast við innflutninginn, sem svokallað burðardýr, en að skipulagning og fjármögnun hafi ekki verið á hans könnu.
Taldi dómurinn að hæfileg refsing væri því fimm mánaða fangelsi, en að fullnustu tveggja mánaða yrði frestað haldi hann skilorð.