Ítalski hjólakappinn Andrea Devicenzi er rétt hálfnaður með hringinn í kringum landið, en í dag snæddi hann morgunverð á Svalbarði í Suður-Þingeyjasýslu áður en hann lagði af stað í átt að Þverá.
Hann hóf ferðalag sitt frá Reykjavík 10. júlí ásamt þeim Simone Pinzolo fararstjóra og Andrea Baglio ljósmyndara, sem tekur upp heimildarmynd um ferðina.
Félagarnir hafa eingöngu gist í tjaldi, en Simone segir veðrið hafa leikið þá grátt í ferðinni. Hann segir rok og rigningu vera helstu þolraunina sem Andrea hafi tekist á við í hjólreiðunum.
Simone greinir frá því að suma dagana hafi verið auðveldara að hjóla á næsta áfangastað en við mátti búast og þá hafi hjólreiðamaðurinn freistast til að hjóla lengri vegalengd. Teymið hefur þá ákveðið að nýta sér þann tíma til að taka upp heimildarmyndina.
Simone segir fólk á leið þeirra almennt hafa sýnt þeim mikla tillitsemi. „Að kynnast fólkinu hérna er það sem gerir þessa ferð svo sérstaka, en við höfum bara einu sinni lent í leiðinlegu tilviki og var það þegar bóndi neitaði okkur um að tjalda úti í náttúrunni og var hann frekar dónalegur í þokkabót.“
Simone gerir ráð fyrir því að Andrea fylgi planinu og að ferðahópurinn verði kominn til Reykjavíkur þann 30. júlí.