Andlát: Gísli Arnór Víkingsson hvalasérfræðingur

Gísli Arnór Víkingsson.
Gísli Arnór Víkingsson.

Dr. Gísli Arnór Víkingsson, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, er látinn, 65 ára að aldri. Hann varð bráðkvaddur í fjölskylduferð á Ítalíu.

Gísli fæddist hinn 5. ágúst 1956 og voru foreldrar hans hjónin Víkingur Heiðar Arnórsson, læknir og prófessor, og Stefanía Gísladóttir.

Gísli ólst upp í Reykjavík og svo í Svíþjóð, þangað sem fjölskyldan flutti þegar faðir hans fór í framhaldsmenntun í læknisfræði. Hann lauk B.Sc. prófi í líffræði við Háskóla Íslands árið 1979 og hélt síðan til Danmerkur, þar sem hann lauk cand.scient. prófi í atferlisvistfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1985.

Á meðan á náminu í Danmörku stóð kynntist hann konu sinni, Guðrúnu Ögmundsdóttur, félagsráðgjafa og alþingismanni. Þau hófu sambúð 1980 og eignuðust þau hjónin tvö börn, Ögmund Viðar Rúnarsson og Ingibjörgu Helgu Gísladóttur. Guðrún lést á gamlársdag 2019.

Heimkominn úr námi starfaði Gísli stutt hjá Blóðbankanum, en réðist til Hafrannsóknastofnunar 1986, þar sem hann starfaði æ síðan. Hann vann þar í upphafi náið með Jóhanni Sigurjónssyni, sem þá var eini hvalasérfræðingur landins, en aukinn kraftur var þá að færast í hvalarannsóknir. Þegar Jóhann var ráðinn forstjóri Hafrannsóknastofnunar, tók Gísli við sem yfirmaður hvalarannsókna og ávann sér virðingu sem fremsti hvalasérfræðingur landsins.

Árið 2016 hlaut Gísli doktorsgráðu í vistfræði hvala frá sjávarlíffræðideild Háskólans í Tromsø í Noregi, en ritgerð hans fjallaði um áratugalangar breytingar á útbreiðslu, stofnstærðum og fæðuvistfræði skíðishvala í hafinu umhverfis Ísland og hvort þar ræddi um afleiðingar loftslagsbreytinga.

Gísli var hneigður til tónlistar eins og fleiri í fjölskyldunni og lék m.a. með hljómsveitunum Kamarorghestum og Puntstráunum á árum áður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert