Sigurður Bogi Sævarsson
Til stendur á næstu vikum að rífa einn af þremur bröggum sem standa á baklóð við Austurveg í miðbænum á Hvolsvelli. Í fyllingu tímans á raunar að rífa alla braggana og lóðin sem þeir standa á verður tekin undir nýjar verslunar- og þjónustubyggingar. Mikil eftirspurn er nú eftir slíku húsnæði á Hvolsvelli og mikilvægt er að svara kalli þar um, segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Braggarnir þrír voru reistir fyrir áratugum af Kaupfélagi Rangæinga, sem þá var og hét. Þeir voru lengi pakkhús, hvar fengust meðal annars ýmsar vörur til landbúnaðar, sem bændur í nærliggjandi sveitum nýttu sér. Seinna var verslun Húsasmiðjunnar í bröggunum. Í einum þeirra er nú markaður með ýmsar vörur smáframleiðaenda á svæðinu.
„Nú verður að segjast eins og er að braggarnir eru ónýtir. Til að mynda er allt burðarvirki þeirra ryðgað í gegn,“ segir Anton Kári.
„Við byrjum því á að rífa einn bragganna og annan að hluta til. Látum þó einn standa áfram, svo sveitamarkaðurinn, sem er mikilvæg starfsemi, hafi áfram aðstöðu.“
Lengri umfjöllun um málið má finna í Morgunblaðið í dag, miðvikudag.