„Í samskiptum á milli þjálfara og foreldra hefði verið hægt að nota annað orðaval í þessu þegar verið var að fara yfir málin varðandi viðburðina sem ganga nú annars vel og eru flottir hjá Rey Cup, en já ég harma það að verið var að nota þetta orðalag,“ segir Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, í samtali við mbl.is.
Þjálfarar 4. flokks kvenna í Breiðablik sendu frá sér bréf til foreldra stúlkna í flokknum þar sem mælst er til þess að þær fari ekki á ball og í sundlaugarpartý í tengslum við knattspyrnumótið Rey Cup, sem fram fer dagana 20. til 24. júlí.
Segir meðal annars í bréfinu að þjálfarar hafi áhyggjur af mismunandi aldursstigum iðkenda og menningarheimum. Á mótinu koma saman unglingar á aldrinum 13 til 16 ára og eru erlend lið í ár frá Bretlandi, Kanada og Noregi.
„Það er undir foreldrum sjálfum komið hvort þær taki þátt, við bönnum engum að fara á viðburði þarna. Það var bara verið að ræða þetta í lokuðum hópi, sem ég harma líka að sé allt í einu á forsíðu fréttamiðlanna,“ segir Eysteinn.
„Vonandi gengur þetta glæsilega mót vel og að þetta sé ekki aðalatriðið í umræðunni um Rey Cup, þetta óheppilega orðalag.“