Hinseginhátíð Vesturlands verður haldin í annað sinn í Snæfellsbæ um helgina. Heimir Berg Vilhjálmsson, markaðs- og upplýsingafulltrúi Snæfellsbæjar, segir mikla stemmingu vera í íbúum Snæfellsbæjar fyrir hátíðinni en í tilefni hátíðarinnar hefur verið máluð regnbogagata í Ólafsvík.
„Það er ofboðslega góð stemming í bænum fyrir hátíðinni og mikil gleði og tilhlökkun í fólki. Íbúar og fyrirtæki eru byrjuð að skreyta sveitarfélagið með regnbogalitum og er gaman að sjá hve margir taka þátt,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Aðspurður segir hann heilmargt vera í gangi í tilefni hátíðarinnar í sveitarfélaginu.
„Til dæmis verða fyrstu opinberu tónleikar Systranna eftir Eurovision-ævintýrið þeirra á föstudaginn í Frystiklefanum á Rifi. Það verður miðnætursund í Lýsuhólslaugum og regnbogasundlaugardiskó í sundlauginni í Ólafsvík, skemmtidagskrá í Sjómannagarðinum í Ólafsvík og Hinsegin-diskó á veitingastaðnum Reks.
Þá verður Páll Óskar líka með ball á bæjarhátíðinni í Grundarfirði og verður boðið upp á hópferðir á það frá Ólafsvík. Hápunktur hátíðarinnar verður svo auðvitað Gleðigangan sem hefst um tvö leytið á laugardeginum í Ólafsvík. Gangan fylgir Ólafsbraut og beygir upp Kirkjutún, en þar er einmitt ný og glæsileg regnbogagata sem Snæfellsbær hafði frumkvæði að því að mála í tilefni hátíðarinnar.“
Spurður nánar út í regnbogagötuna segir hann götuna vera glænýja og að framtakið hafi nú þegar vakið mikla athygli, bæði hjá íbúum og gestum. Hann segir fjölmarga ferðamenn hafa gefið sig á tal við skippuleggjendur, tekið myndir af sér við götuna og skapað minningar þrátt fyrir að gatan sé enn ekki kominn „á kortið“.
„Regnbogagatan er á fallegum stað í Ólafsvík þar sem hún er við kirkjuna, Ólafsvíkurenni, bæjarfossinn og höfnina. Það má í raun segja að gatan hafi alla burði til að verða ákveðið kennileiti fyrir Ólafsvík og vonandi er hún komin til að vera.“
Að sögn Heimis hefur hátíðin mikla þýðingu fyrir Snæfellsbæ, en hátíðin var haldin í fyrsta sinn í fyrra í Borgarnesi.
„Það er okkur mikill heiður að fá að halda hátíðina með félaginu Hinsegin Vesturland sem var stofnað í fyrra til að auka sýnileika, stuðning og fræðslu um þetta málefni. Þau eru ævinlega öll velkomin til Snæfellsbæjar og sveitarfélagið styður sjálfsögð mannréttindi allra og margbreytileika mannlífsins.“
Að endingu hvetur Heimir íbúa á Vesturlandi og víðar til að koma vestur og taka þátt í gleðinni.
„Veðurspáin á Snæfellsnesi lítur vel út fyrir helgina, málefnið er gott og hér er auðvitað hægt að gera sér glaðan dag á fjölmörgum veitingahúsum og hvergi betra að vera í góðra vina hópi á fallegum og björgum sumardegi.“