Á tólfta hundrað hugmynda bárust Reykjavíkurborg í tengslum við uppbyggingu Laugardalslaugar. Rennibrautir af öllum stærðum og gerðum, yfirbyggt svæði fyrir yngstu börnin og veitingasala voru meðal þess sem flestir þátttakendur hugmyndasöfnunarinnar lögðu til.
Hugmyndirnar verða hafðar til hliðsjónar í hönnunar- og framkvæmdasamkeppni um endurgerð laugarinnar og tengdra mannvirkja, ásamt öðrum niðurstöðum víðtæks íbúasamráðs um laugina samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Í tilkynningunni segir að rennibrautir voru alls nefndar 212 sinnum í innsendum hugmyndum og rennibrautagarður alloft. Svokölluð klósettrennibraut líkt og í sundlaug Akureyrar var oft lögð til, ásamt trampólínrennibraut. Mikill áhugi var á að fá öldulaug og stökkpalla og kom orðið vatnaveröld oft fyrir, þá helst í tengslum við óskir um yfirbyggt leiksvæði fyrir yngstu börnin, með til dæmis leiktækjum, heitum laugum og fossum.
Trampólín uppi á bakka eða ofan í vatni voru líka vinsælar tillögur, sem og klifurveggur, reipi til að sveifla sér í, körfuboltakörfur, skákborð, handboltavöllur og þrautabraut. Margir nefndu svokallað „lazy river“ sem þekkist víða erlendis og þá komu fyrir orð eins og rússíbani og parkour-braut. Þá komu fram hugmyndir um fiskabúr á veggi sundlaugarinnar.
Flestir sem nefndu stúkuna vildu halda henni en laga og gefa nýtt hlutverk. Hugmyndir voru um gufuböð í stúkunni með útsýni yfir laugarsvæðið og einhverjir nefndu rennibraut úr stúku og út í sundlaugina.
Pottar komu mikið við sögu og meðal hugmynda voru sjópottur, góðir nuddpottar, útsýnispottur, ljósapottur og pottur með sturtu ofan í. Ýmiss konar heit böð voru nefnd, svo sem ekta finnsk sauna, ilmkjarnasauna og tyrkneskt gufubað. Þá var hvíldaraðstaða oft nefnd í tengslum við heitu böðin.
„Laugin er löngu komin á tíma vegna viðhalds, sjálft laugarkarið, lagnir og fleira. Það er kominn tími á að endurnýja allt,“ sagði Árni Jónsson, forstöðumaður Laugardalslaugar, þegar fjallað var um hugmyndasöfnunina fyrr á árinu.
„Og það skiptir máli hvernig laugin á að þróast. Á Íslandi er sundlaug ekki bara sundlaug. Hún er samfélagsmiðstöð og hefur mikilvægt hlutverk sem slík.“
Hönnunarsamkeppnin verður í tveimur þrepum og haldin í samráði við Arkitektafélag Íslands. Unnið verður úr áðurnefndum hugmyndum og verða þær hluti samkeppnisgagna. Keppendur verða hvattir til að horfa til hugmyndanna við tillögugerð sína.
Dómnefnd verður skipuð sem semur samkeppniyfirlýsingu, annars yfirferð tillagana og skilar niðurstöðum sínum til Reykjavíkurborgar. Áætlað er að niðurstaða dómnefndar geti legið fyrir um mitt næsta ár, 2023.