Miklar breytingar á Leifsstöð

Frá Leifsstöð.
Frá Leifsstöð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirhugað er að samþykkja fyrstu heildrænu lögin um landamæri og landamæraeftirlit á Íslandi í haust en það tókst ekki á síðasta þingi. Þetta staðfestir Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, í samtali við Morgunblaðið. Í umsögn sem embætti ríkislögreglustjóra sendi Alþingi, kemur fram að framkvæmd landamæraeftirlits muni taka umfangsmiklum breytingum ef frumvarpið verður samþykkt.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, miðvikudag.

Hluti laganna er partur af samræmdu landamæraeftirliti hjá Schengen-ríkjunum sem mun taka í gildi samtímis hjá öllum aðildarríkjunum. Schengen-ríkin samanstanda af 22 ríkjum Evrópusambandsins og ríkjum í Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA).

Helgi Valberg Jensson, yfirlögfræðingur embættis ríkislögreglustjóra, skrifar undir umsögnina frá embættinu. Helgi leggur áherslu á það í umsögn sinni að lagafrumvarpið verði samþykkt sem allra fyrst. Hann segir skipulag verkefnisins gríðarlega viðamikið og kostnaðarsamt.

Bryndís segir að það hafi ekki tekist að taka frumvarpið fyrir á síðasta þingi, vegna þess að það hafi verið lagt fram of seint. „Það kom það stuttu fyrir sumarfrí að við sáum strax að við myndum aldrei ná að fara vel yfir það,“ segir hún en bætir við að þau í nefndinni stefni á að taka frumvarpið fyrir um leið og þingið kemur saman aftur. Mistök urðu til þess að frumvarpið var ekki sent til umsagnar. „Tölvupósturinn skilaði sér víst ekki til umsagnaraðila.“

Lengri umfjöllun um málið má nálgast í Morgunblaðinu í dag, miðvikudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert