Sjóva og Rannsóknarstofa Sálfræðistofnunnar Háskóla Íslands í atferlisgreiningu hafa endurnýjað samstarfssamning um að setja upp viðvörunarmerkingar í innkaupakerrur til að hindra slys á börnum.
Markmið viðvörunarmerkinganna er að vekja fólk til vitundar, en árlega slasast fjöldi barna á Íslandi í slysum tengdum innkaupakerrum.
Árið 2010 hóf Zuilma Gabriela Sigurðardóttir, PhD, prófessor í atferlisgreiningu og atferlismeðferð við sálfræðideild Háskóla Íslands og stofustjóri Rannsóknastofu í atferlisgreiningu, rannsókn til að kanna áhrif þess að koma sérstökum viðvörunarspjöldum fyrir í innkaupakerrum matvöruverslana á hegðun foreldra. Niðurstöður sýndu að mun færri foreldrar settu börn sín í kerrurnar þegar spjaldið var í þeim.
„Einfalt sjónrænt áreiti sem komið er fyrir á innkaupakerrum getur því dregið verulega úr því að börn séu sett ofan í innkaupakerrur. Þetta vakti athygli Sjóvár og gerður var samstarfssamningur í apríl 2014,“ segir Jóhann Þórsson, markaðsstjóri Sjóvá.
Jóhann segir að niðurstöðurnar hafi vakið athygli á alþjóðavísu og fela í sér mikilvæga þekkingu til að efla forvarnir í slysavörnum barna. „Verkefnið var meðal annars kynnt á ráðstefnu Slysavarnafélagsins Landsbjargar síðastliðið haust, Slysavarnir 2021.“