5,5% launahækkun og 1,1 milljón greitt aftur í tímann

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR. Laun hans hækkuðu um 5,5% frá …
Bjarni Bjarnason, forstjóri OR. Laun hans hækkuðu um 5,5% frá byrjun árs að telja þann 27. júní. Ljósmynd/Aðsend

Laun forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hækkuðu um 5,5% afturvirkt til 1. janúar. 

Tillaga þess efnis var lögð fyrir stjórnarfund OR sem fékk nánast einróma samþykki, þann 27. júní, en Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sat hjá er atkvæði voru greidd. 

Bjarni Bjarnason forstjóri OR var með 2 milljónir og 658 þúsund á mánuði árið 2020. Í mars hækkuðu laun hans upp í 3 milljónir og 339 þúsund á mánuði og í júní hækkuðu þau upp í 3 milljónir og 522 þúsund, um 183 þúsunda króna hækkun.

Í heild fær hann um 1 milljón og 281 þúsund að loknum júlímánuði þar sem hækkunin nær til byrjun þessa árs.

Launabilið milli hæst og lægst launuðu gríðarlegt

Borgarráðsfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands lögðu fram bókun á fundi borgarráðs í dag þar sem áðurnefnd launahækkun er gagnrýnd með svohljóðandi hætti:

„Laun forstjóra OR eru vel yfir 3 milljónum. Á meðan manneskjur á lágmarkslaunum og undir því eiga ekki fyrir mat út mánuðinn er verið að hækka laun forstjóra sem er á ofurlaunum. Það er ljóst að launastefna borgarinnar og fyrirtækja í eigu hennar er í engum takti við veruleikann, þar sem launabilið á milli þeirra hæst launuðu og lægst launuðu er gríðarlegt í því stéttskipta samfélagi sem við búum í.“ 

Uppfært 22. júlí 2022:

Hér að ofan greindi mbl.is frá því að heildarlaun forstjóra OR höfðu hækkað upp í 3 milljónir og 522 þúsund.

Sú upphæð er röng þar sem hún var reiknuð út frá launatölu ársreiknings OR frá árinu 2021 en samkvæmt upplýsingum frá OR endurspeglar sú tala ekki hver mánaðarlaunin eru sökum þess að launatalan það árið tók mið af eingreiðslu sem forstjórinn fékk árið 2021 sem nam þremur milljónum króna. 

„Það sagði í ráðningarsamningi hans; laun skulu endurskoðuð einu sinni á ári. Svo dettur það upp fyrir eitthvað árið og þá var það klárað með þessari eingreiðslu sem að á þá að skýra þennan mismun, þ.e. af hverju launatalan er hærri í ársreikningnum fyrir árið 2021 heldur en margfeldi mánaðarlaunanna það árið.“

Frá síðustu launabreytingu höfðu laun almennt í samfélaginu (launavísitalan) hækkað um 7,5% og laun almenns starfsfólks hjá OR um 6,3%.

Laun forstjóra hækkuðu við þetta í 3.030.666 krónur á mánuði auk bifreiðahlunninda sem nema 149.110 kr. Í heild fær hann um 1 milljón og  105 þúsund að loknum júlímánuði þar sem hækkunin nær til byrjun þessa árs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert